Körfubolti: Naumt tap í fyrsta leik ársins

Hattarmenn máttu þola tap í fyrsta leik ársins í Subway-deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Höttur tók þá á móti Grindavík og eftir mikla baráttu undir lok leiksins máttu heimamenn sætta sig við sjö stiga tap, 71-78. Höttur situr í 8. sæti deildarinnar, síðasta sætinu sem gefur sæti í úrslitakeppninni, með 12 stig.

Leikurinn fór hægt af stað og lítið var skorað á upphafs mínútunum. Þegar leið á fyrsta leikhluta fóru skot Grindvíkinga að detta og eftir leikhlutann leiddu gestirnir með 9 stiga mun, 13-22. Gestirnir héldu áfram að bæta í forystuna og hálfleikstölur voru 27-47. Það munaði um minna fyrir heimamenn að Dontaye Buskey meiddist í öðrum leikhluta og kom ekki meira við sögu í leiknum eftir það.

Svo virðist sem Viðari þjálfara hafi tekist að berja leikmönnum Hattar baráttuanda í brjóst í hálfleik því það var töluvert annað að sjá til liðsins í seinni hálfleik. Liðið minnkaði muninn jafnt og þétt og komu honum niður í 9 stig. Grindvíkingar börðu þó í brestina hjá sér og fyrir 4. leikhlutann leiddu gestirnir með 13 stiga mun.

Lokaleikhlutinn var svo æsispennandi og Hattarmenn sýndu mikla seiglu í honum. Þeir söxuðu áfram á forskotið og þegar að innan við tvær mínútur lifðu leiks minnkaði Obie Trotter forystu Grindvíkinga niður í eitt stig, 71-72. Nær komust heimamenn hins vegar ekki heldur bættu gestirnir við og lönduðu að lokum sjö stiga sigri sem fyrr segir.

Atkvæðamestir Hattarmanna voru þeir Matej Karlovic skoraði sem skoraði 22 stig og Nem­anja Knezevic sem skoraði 17 stig og tók 13 frá­köst.

Höttur mætir næst Breiðabliki í Kópavoginum á fimmtudaginn kemur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.