Nemendur Egilsstaðaskóla hraustastir á Austurlandi

Lið Egilsstaðaskóla vann Austurlandsriðil Skólahreysti sem fram fór í íþróttahúsinu á Egilsstöðum í seinustu viku. Liðið náði 59 stigum og tryggði sér þátttökurétt í úrslitunum í Laugardalshöll í lok apríl.

 

egsskol_skolahreysti_web.jpgLið Vopnafjarðarskóla varð í öðru sæti með 49 stig og lið Grunnskóla Breiðdalshrepps í því þriðja með 44,5 stig. Ellefu skólar af Austurlandi sendu lið til þátttöku.

Af afrekum einstaklinga má nefna að Stefán Bragi Birgisson, Egilsstaðaskóla, hífði sig 33 sinnum upp, Anna Mekkín Reynisdóttir, Grunnskóla Hornafjarðar, gerði 45 armbeygjur, Fannar Bragi Pétursson, Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar, tók 40 dýfur og Rannveig Steinbjörg Róbertsdóttir, Grunnskóla Breiðdalshrepps, hékk í 3,26 mínútur í hreystigreipinni. Grunnskóli Hornafjarðar var fljótastur í gegnum hraðabrautina, 2,21 mínútu.

Lið Egilsstaðaskóla mynduðu: Stefán Bragi Birgisson, Erla Gunnlaugsdóttir, Jóhanna K. Sigurþórsdóttir og Hafsteinn Gunnlaugsson.

Lokastaðan:

Egilsstaðaskóli    59,00
Vopnafjarðarskóli     49,00
Grunnskóli Breiðdalshrepps    44,50
Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar     42,50
Grunnskóli Hornafjarðar    42,50
Grunnskóli Reyðarfjarðar     37,50
Nesskóli    28,00
Fellaskóli, Fellabæ     25,00
Grunnskóli Djúpavogs     24,00
Grunnskólinn á Eskifirði    24,00
Grunnskólinn á Stöðvarfirði     20,00

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar