Níu í unglingalandsliðshópum í blaki

Níu leikmenn frá Þrótti hafa verið valdir í úrtakshópa fyrir U-17 og U-19 ára landsliðin í blaki sem taka þátt í Norðurlandamótum, eða NEVZA í haust.

Í karlaliðunum eru þeir Arnar Jacobsen, Einar Leó Erlendsson, Haukur Eron Heimisson, Óðinn Þór Helgason og Sölvi Hafþórsson.

Í kvennaliðunum eru þær Diljá Mist Jensdóttir, Erla Marín Guðmundsdóttir, Helena Kristjánsdóttir og Hrefna Ágústa Marinósdóttir.

Fleiri gamlir Þróttarar eru með hópunum. Má þar nefna Óskar Benedikt Gunnþórsson, sem nýgenginn er til liðs við HK, Ágúst Leó Sigurfinnsson, Ármann Snær Heimisson og Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir sem öllu skiptu yfir í KA og Freyja Kristín Sigurðardóttir sem fór til Ikast í Danmörku. Í þjálfarahópunum eru Borja Gonzalez og Atli Fannar Pétursson.

Karlaliðin æfðu á Húsavík um síðustu helgi en allir hópar hafa verið kallaðir til æfinga í Reykjavík nú um helgina. Kvennaliðin æfa síðan á Hvammstanga í lok mánaðarins og svo bæði liðin í Reykjavík áður en haldið verður til keppni. U-17 ára liðin spila í Ikast í Danmörku um miðjan október en U-19 ára liðin í Þórshöfn í lok október.

Þróttarar áttu líka fulltrúa á NEVZA móti sem haldið var í Manchester á Englandi í júní. Ágúst Leó og Arnar Jacobsen léku í karlaliðum en þær Helena Kristjánsdóttir og Sóldís Júlía mynduðu eitt kvennaliðanna.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar