Blak: Norðfirðingur valinn í norska landsliðið

Eyrún Sól Einarsdóttir, sem uppalin er í Neskaupstað, hefur verið valin í norska landsliðið sem undirbýr sig fyrir forkeppni Evrópumótsins í blaki. Góð tölfræði vakti athygli landsliðsþjálfaranna á henni, þótt liðinu hennar gengi illa.

Eyrún flutti út til Noregs 14 ára að aldri árið 2014 með móður sinni og stjúpföður. Hún hafði æft blak með Þrótti og hélt áfram að spila samhliða námi í framhaldsskóla. Hún varð síðan ein eftir þegar þau fluttu til Íslands árið 2017.

Hún kom síðan til Íslands og spilaði með Þrótti veturinn 2019-20. „Ég ætlaði mér að klára framhaldsskólann í Noregi því það er meira val þar, en undir lokin var mér farið að leiðast í honum. Reglan þar er að ef þú fellur í lokaprófum þarftu að borga fyrir að taka áfangann aftur og það geta verið talsverðar upphæðir.

Á sama tíma fór kærastinn minn að sinna herskyldu. Af því ég er íslenskur ríkisborgari þá slapp ég við herþjónustuna. Ég var spurð hvort ég vildi undirgangast hana en ég hafði engan áhuga á bera vopn. Ég kom heim til að safna pening og kláraði framhaldsskóla í VA á opinni braut.

Mér fannst mjög gaman að spila með Þrótti. Þar hitti ég fyrir bekkjarsystur mínar og gat endurnýjað tengslin við þær. Raúl Rocha var þjálfari liðsins þennan vetur og hann var mjög skemmtilegur því hann var öðruvísi, lagði til dæmis mikla áherslu á uppgjafir.“

Með góða tölfræði


Eyrún Sól fór í norska tækniháskólann í Þrándheimi (NTNU) sem heldur einnig úti afar öflugu íþróttafélagi (NTNUI). Í blakliðum skólans eru 300 nemendur og í upphafi kennsluárs eru haldnar úrtaksæfingar þar sem þeim er raðað í lið eftir getu. Eyrún komst í aðalliðið sem vann næst efstu deildina og öðlaðist þar með þátttökurétt í úrvalsdeild.

Um sumarið skipti hún um nám og fór að læra leikskólakennarafræði við DMMH. Hún átti rétt á að vera áfram í NTNUI þar sem ekki eru sambærileg blaklið á svæðinu en þurfti aftur á úrtaksæfingarnar. Að þeim loknum voru aðrir miðjumenn teknir fram yfir hana þannig að Eyrún Sól endaði í B-liðinu sem spilaði í næst efstu deild. Síðasta haust vann hún sér aftur inn sæti í úrvalsdeildarliðinu sem í vor féll niður um deild.

En þrátt fyrir dapurt gengi liðsins hafði Eyrún Sól vakið athygli. „Þjálfari norska landsliðsins hringdi í mars og spurði hvort ég vildi mæta á úrtaksæfingar. Tölfræðin mín yfir tímabilið var góð, ég var með flestar blokkeringar í deildinni og þess vegna var mér boðið að koma. Ég benti á að ég væri ekki með norskan ríkisborgararétt en hann sagði mér að ég gæti samt komið á æfingarnar.

Ég æfði með liðinu í Osló um miðjan maí. Þjálfararnir fengu vægt áfall þegar þeir sáu hvað ég er lágvaxin miðað við miðjumann. Mér fannst mér ekki ganga vel á öðrum degi æfinganna en samt fékk ég helgina á eftir boð um að koma í 19 manna landsliðshópinn. Ég minnti aftur á ríkisborgararéttinn en fékk þau svör að ég þyrfti hann ekki til að æfa með liðinu. Ég þarf því að sækja um hann í sumar. Þetta var mjög gaman því það var mikil upplifun að spila með bestu leikmönnum landsins. Það var samt skrýtið að vera þarna í klæðnaði með norska fánanum á öxlinni.“

Eyrún Sól á eitt ár eftir af grunnnáminu í DMMH og spilar því með NTNUI í fyrstu deildinni næsta vetur. Hún telur liðið vera vel mannað og eiga að fara upp, sem aftur gefi rúm til að reyna nýjar aðferðir af æfingasvæðinu án þess að hætta því að tapa leiknum. Hún stefnir síðan að því að fara í meistaranám í talmeinafræði, sem yrði í öðrum háskóla og þar með nýju liði.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar