Ný hlaupaleið, Fílalagið og Kiddi Soð

Um helgina fer fram sannkölluð hlauparahátíð við Borgarfjörð eystri. Mótshaldarar bjóða nú upp á þriðju hlaupaleiðina og metnaðarfyllstu dagskrá til þessa.

Í fyrsta sinn verða þrjár hlaupaleiðir í boði í Dyrfjallahlaupinu sem haldið er nú í sjöunda sinn. „Hlaupið var fyrst haldið 2017 en fyrir 3 árum breyttist fyrirkomulagið og við ákváðum að taka þetta á næsta level“ segir Olgeir hlaupastjóri mótsins. Þá var fyrst boðið upp á tvær leiðir, önnur 12 km og hin 24 km. Í ár verður þriðju leiðinni bætt við en hún er 50 km löng. „50 km leiðin er svolítil tilraunastarfsemi en hún er bara ein af þremur leiðum á íslandi sem gefa 3 ITRA stig.“ ITRA eru alþjóðleg samtök utanvegahlaupara og slík stig eru metin af mikilli hækkun leiðar á móti vegalengd.

Ungmennafélag Borgafjarðar stendur fyrir hátíðinni í samstarfi við Björgunarsveitina og aðra aðila á svæðinu. Saman hafa þessir aðilar skipulagt fjölbreytta dagskrá sem hefst föstudagskvöldið með pizzaveislu að hætti Kidda Soð. Allir viðburðir tengdir hlaupinu munu vera opnir öðrum en hlaupurum og því fólk hvatt til þess að koma og taka þátt í dagskrá helgarinnar. Olgeir lýsir því síðan hvernig allar leiðir endi á sama stað við mikil fagnaðarlæti. „Hlaupið endar hjá lundunum við smábátahöfnina og verður þar slegið til heljarinnar veislu milli 14 og 16 þar sem hlaupurum er fagnað af fullt af fólki.“

Þáttastjórnendur vinsæla hlaðvarpsins Fílalagið verða á svæðinu alla helgina en Snorri Helgason heldur tónleika föstudagskvöldið og Bergur Ebbi kitlar hláturtaugar gesta með uppistandi laugardagskvöldið.

„Við höfum gert allt sem við getum til að setja saman metnaðarfullt prógram og þessi dagskrá er sú stærsta hingað til“ segir Olgeir að lokum ásamt því hvað veðurspáin sé alveg kjörin fyrir hlaupara. Áhugasamir eru hvattir til þess að skoða heimasíðu hlaupsins fyrir frekari upplýsingar og nánari dagskrá helgarinnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar