Nýjar leiðir í Dyrfjallahlaupi

Farnar verða nýjar leiðir í Dyrfjallahlaupi í sumar og hlaupið um Víknaslóðir í stað Stórurðar. Tveir af fremstu hlaupurum landsins hafa boðað komu sína.

Hlaupið verður haldið í fimmta sinn í sumar þann 10. júlí af Ungmennafélagi Borgarfjarðar. Til þessa hefur verið hlaupin 24 km leið í gegnum Stórurð en nú verður hlaupið um Víknaslóðir. Að auki verður í boði 12 km leið þar.

Með þessu vonast skipuleggjendur hlaupsins til þess að geta gefið fleiri hlaupurum til að spreyta sig í krefjandi en fallegum hlaupaleiðum um svæðið.

Fleiri breytingar eru á hlaupinu. Nýtt merki eftir þá Hafþór Snjólf Helgason og Magnús Þorra Jökulsson hefur verið kynnt til sögunnar. Þá verður Coros snjallúraframleiðandinn aðalstyrktaraðili hlaupsins og ber hlaupið nafn þess.

Eins hefur hlaupið hlotið vottun Alþjóða utanvegahlaupasambandsins ITRA, en keppendur í Dyrfjallahlaupinu fá eitt stig til að komast inn í stærri hlaup erlendis.

En þótt ýmsar breytingar séu er líka annað sem heldur sér. Tveir af fremstu langhlaupurum landsins, þau Elín Edda Sigurðardóttir og Arnar Pétursson, hafa boðað komu sína en þau unnu fyrsta Dyrfjallahlaupið 2017.

„Það er alltaf upplifun að koma til Borgarfjarðar eystri, sem er fallegur staður auk þess sem bæði afi Jón og amma Jóna ættuð þaðan. Ég hlakka mikið til að hlaupa nýju leiðina innan um flottustu fjöll landsins,” segir Arnar.

„Mig langar að koma aftur í þetta hlaup vegna þess að þetta er einstakt tækifæri til að hlaupa um í þessari stórbrotnu náttúru og góð afsökun til að kíkja á Borgarfjörð eystri,“ segir Elín Edda.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.