Nýjungar á Sumarhátíð UÍA

UÍA stendur fyrir árlegri Sumarhátíð í samstarfi við Síldarvinnsluna. Áhersla er lögð á að kynna íþróttastarfsemina á svæðinu með árlegum dagskrárliðum ásamt nýjum sem ekki hafa sést undanfarin ár. Þátttökugjaldið er ekkert og þátttakendur hafa ótakmarkaða skráningu.

Stærsti viðburður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands fer fram um helgina á Egilsstöðum og nágrenni. Þar verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna. „Sund og frjálsar eru með stærri viðburðum helgarinnar en einnig verða nýir viðburðir á dagskrá“ segir einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, Sæbjörn Guðlaugsson.

"Í fyrsta sinn verður boðið upp á Motorcross sýningu á Mýnesi þar sem krakkar koma og sýna snilli sína. Eftir að sýningu lýkur verður börnum og unglingum boðið að skoða og jafnvel prófa. Við bættum líka við borðtennis en það hefur ekki verið á dagskrá undanfarin ár."

Kökuskreytingakeppnin hefur verið mjög vinsæll liður hátíðarinnar. Þá hafa skipuleggjendur fyrirfram ákveðið þema. Í fyrra var það ævintýri en þema ársins er náttúran. Þá er keppendum skaffað 3 svampbotnum, kremi, matarlitum og skrauti og þeir keppast um að framsetja flottustu eða frumlegustu kökuna. Sæbjörn segir keppendum líka frjálst að koma með eigið efni til skreytinga og minnist á að keppninni er skipt í tvo aldursflokka, 11-12 ára og svo annar flokkur fyrir 13-15 ára.


Það er ótakmörkuð skráning fyrir þátttakendur um helgina. „Það má í raun skrá sig í eins mikið og maður vill. Við höfum reynt að hafa þetta þannig að viðburðir stangist sem minnst á."

Skipuleggjendur eru spenntir fyrir helginni, veðurspáin er þeim hliðholl og von er á fólki héðan og þaðan af landinu „Það eru skráðir keppendur frá Keflavík en þátttakan tengist auðvitað oft veðrinu. Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Folf verður í boði fyrir alla fjölskylduna og alsherjar stuð í gangi.“ Sæbjörn segist líka gífurlega þakklátur fyrir sjálfboðaliðana á svæðinu. „Við erum í raun bara 2 starfsmenn og við gætum aldrei haldið þetta ef það væri ekki fyrir aðstoð sjálfboðaliðana“.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar