Ólympíuhlaupið sett á Reyðarfirði
Ólympíuhlaup Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, sem þreytt er í grunnskólum um allt land, var sett á Reyðarfirði í morgun.Þrír starfsmenn sambandsins auk lukkudýrsins Blossa komu austur til að leiða hlaupið.
Árum saman var ÍSÍ þátttakandi og umsjónaraðili hérlendis í Norræna skólahlaupinu. Það hlaup lognaðist út af annars staðar en ÍSÍ hélt sínu striki undir nýju nafni.
Að lokinni upphitun var hlaupið ræst af lóð Grunnskóla Reyðarfjarðar um klukkan tíu í morgun. Þrjár vegalengdir voru í boði, hringur upp að Stríðsárasafni, inn að tjaldsvæði eða að Grænafelli fyrir þá hörðustu.
Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, segir að sambandið hafi horft til þess að setja hlaupið fyrir austan. Reyðarfjörður hafi orðið fyrir valinu því skólinn hafi verið afar tryggur þátttakandi í hlaupinu. Hún var ánægð með hvernig til tókst í morgun.
„Það er æðislegt að hafa komið hingað. Hér taka allir þátt: nemendur, kennarar, starfsfólk. Skólinn var tilbúinn að taka á móti okkur um leið og við höfðum samband.“
Um 70-80 skólar taka þátt í hlaupinu ár hvert. Alls staðar eru þrjár vegalengdir í boði og senda skólarnir inn upplýsingar um þátttökuna til ÍSÍ. Skólarnir fara í pott og eru dregin út gjafabréf sem nýtast til kaupa á íþrótta- eða leikjabúnaði fyrir skólana.
Með í för í morgun var einnig Birgir Sverrisson, framkvæmdastjóri Lyfjaeftirlits Íslands. Hann heldur fyrirlestra fyrir elstu bekkina á Reyðarfirði og nemendur í Menntaskólanum á Egilsstöðum um dag um áhrif orkudrykkja og fæðubótarefna.