Opnar æfingar og fyrirlestrar um bætta heilsu í íþróttaviku

Fjöldi opinna æfinga og annarra viðburða eru í boði í evrópskri íþróttaviku sem sveitarfélögin á Austurlandi og íþróttafélögin og fleiri aðilar taka þátt í.

Vikan hefst í dag og eru viðburðir skipulagðir fram til næsta mánudags. Á þeim tíma verða í boði fjöldi opinna æfinga hjá íþróttafélögum og einkaaðilum fyrir börn og fullorðna.

Inn á milli eru síðan óhefðbundnari viðburðir sem er ætlað að hvetja til hreyfingar. Meðal þeirra er prjónaganga sem gengin verður frá Nálahúsinu á Egilsstöðum klukkan 17:30 í dag í bókasafnið.

Á morgun, þriðjudag, býður Sigurgeir Svanbergsson upp á sjósundstíma í samstarfi við Siglingaklúbb Eskifjarðar klukkan 17:00 og klukkan sjö er vatnsleikfimi með Fjólu Þorsteinsdóttur á Fáskrúðsfirði.

Á föstudag verður Janus heilsuefling með tíma fyrir 65 ára og eldri á Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og Norðfirði. Íþróttafélagið Þróttur stendur fyrir maraþonsundi sem hefst klukkan sex á föstudagsmorgunn og stendur í tólf tíma.

Í bæði Fjarðabyggð og Múlaþingi verða fyrirlestrar um bætta heilsu eða íþróttir. Á vegum Múlaþings verður klukkan 20:00 fyrirlestur í fjarfundi um betri svefn. Inga Rún Björnsdóttir, sálfræðingur, fjallar um svefn, svefnleysi og gefur góð ráð.

Í Fjarðabyggð segir Thomas Danielsen, íþróttasálfræðingur, frá aðferðum sem hann notar til að hjálpar íþróttafólki að ná sem bestum árangri í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 16:00 á morgun. Thomas hefur unnið með dönskum íþróttafélögum í efstu deild en starfar í dag með nýkrýndum bikarmeisturum KA í knattspyrnu og dönskum atvinnukylfingum.

Nánari upplýsingar um dagskrá vikunnar má finna á heimasíðum sveitarfélaganna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar