"Skelfileg martröð" á Egilsstöðum

ImageLeiknismenn buðu upp á laglegan Breiðholtsbúgí þegar þeir unnu öruggan sigur á lélegum Hattarmönnum í körfuknattleik á Egilsstöðum í kvöld. Það er skemmst frá því að segja að heimamenn voru skrefi á eftir gestunum allan leikinn og þrátt fyrir athyglisverðar tilraunir til að snúa gjörtöpuðum leik sér í hag á síðustu mínútu leiksins var niðurstaðan sú að það er Höttur sem situr einn á botni 1. deildar. Liðið er nú stigalaust eftir þrjá leiki.

 

Reyndar byrjuðu Hattarmenn ekki illa því Daniel Terrell skoraði strax tvær þriggja stiga körfur og liðið náði 8-2 forystu. Það var það skásta sem áhangendur heimamanna fengu að sjá í kvöld. Gestirnir tóku völdin með hröðum og skemmtilegum sóknarleik og sóttu grimmt að körfunni. Liðið er ekki hávaxið en virðist vera alveg sama um það og sækja sóknarfráköst af mikilli grimmd. Hattarmenn voru aftur á móti staðir í vörninni og gekk illa að halda í við spræka Leiknismenn. Staðan í hálfleik var 32-46 og sama sagan hélt áfram í seinni hálfleik. Þrátt fyrir að Hattarmenn reyndu að skipta í svæðisvörn um tíma skilaði það engu því að þá settu Leiknismenn niður langskotin. Forskot þeirra varð mest 24 stig um miðjan fjórða fjórðung. Hattarmenn gáfu hins vegar aldrei upp vonina og síðustu mínútuna var mikill darraðadans þar sem heimamenn sendu Leikni hvað eftir annað á vítalínuna og negldu síðan niður þristum í kjölfarið. En þetta var allt of seint í rassinn gripið og niðurstaðan óumflýjanleg. Lokastaðan 83-97.

Nýjasti leikmaður Hattar þarf tíma til að aðlagast

Þjálfarar liðanna voru eðlilega missáttir eftir leikinn í kvöld. „Þetta átti að vera fjögurra stiga leikur, en þetta var eiginlega bara martröð. Skelfileg martröð" sagði Viggó Skúlason þjálfari heimamanna eftir leikinn. „Ég hélt að menn væru tilbúnir fyrir þennan leik, en menn voru það greinilega ekki". Það kom lítið út úr nýjasta leikmanni Hattar, Bretanum Nicholas Paul. Viggó vildi samt ekki skella of mikilli skuld á hann. „Hann kom nú bara til okkar í gær og við skulum gefa honum smá breik á að þekkja mennina og koma inn í hópinn. Við skulum ekki gleyma því að hann er ekki nema 21 árs og hann þarf bara sinn tíma eins og allir aðrir". Aðspurður sagði Viggó að Leiknismenn hefðu komið sér á óvart. „Já, verulega. Léttleikandi lið og ákveðnir ungir strákar sem höfðu greinilega gaman af því sem þeir voru að gera. Það skipti miklu máli hér í kvöld".

ImageAri Gunnarsson þjálfari Leiknismanna var eðlilega ánægður með að ná í fyrsta sigurinn á tímabilinu. „Það er alltaf gaman að vinna og mjög gott að koma hingað á erfiðan heimavöll Hattar og klára leik. Ég veit að þeir eiga eftir að ná í fullt af stigum hérna þannig að þetta var mjög gott". Aðspurður um uppleggið fyrir leikinn sagði hann það ekki hafa verið flókið. „Við ætluðum að skora fleiri stig en þeir og taka fleiri fráköst. Kaninn hjá þeim átti ekki að fá að skora neitt. Hann skoraði reyndar einhver 38 stig en annað gekk upp".

Góð innkoma Andrésar gladdi augað

Það er varla hægt að segja að nokkur Hattarmanna hafi átt góðan leik, en Daniel Terrel skoraði vissulega 39 stig og bjargaði því sem bjargað varð fyrir sína menn. Þá gladdi innkoma Andrésar Kristleifssonar augað. Þar er á ferðinni 15 ára snáði sem skoraði 11 stig, þar af þrjár þriggja stiga körfur úr fimm tilraunum, og fékk að auki fimm villur. Þá fimmtu raunar við nokkurn fögnuð áhorfenda sem höfðu yfir litlu öðru að kætast en baráttugleði þessa unga heimamanns.

Hjá Leiknismönnum er erfitt að taka nokkurn út úr jöfnu liði þar sem fimm leikmenn skoruðu 10 stig eða meira. Framganga Einars Þórs Einarssonar verðskuldar þó sennilega mest hrós en hann kom af bekknum og varð stigahæstur með 17 stig og tók 8 fráköst. Darrel Lewis var með 16 stig og 7 fráköst.

Dómarar leiksins, þau Kristinn Óskarsson og Georgía Kristiansen höfðu fín tök á leiknum en mörgum heimamanninum fannst gestirnir þó hafa full frjálsar hendur í varnarleiknum. Athygli vekur að heimamenn fengu aðeins 4 vítaskot í leiknum en gestirnir 31.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.