Ráðast í endurbætur á gervigrasvellinum í Neskaupstað í haust
Til stendur að hefja endurbætur á gervigrasvellinum í Neskaupstað í haust. SÚN kostar framkvæmdirnar sem gjöf til samfélagsins á staðnum.Þetta kom fram í 100 ára afmælishófi Þróttar Neskaupstað síðasta laugardag.
Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN, sagði að til stæði að breikka völlinn og leggja á hann nýtt gervigras. Áætlaður kostnaður er 200-300 milljónir sem SÚN leggur til. Þá eru hafnar þreifingar um nýja félagsaðstöðu. Guðmundur sagði SÚN tilbúið að skoða aðkomu að henni.
Guðmundur afhenti Þrótti einnig 10 milljónir króna í afmælisgjöf. Samvinnufélagið hafði áður styrkt afmælishátíðina um 2,5 milljónir. Í máli Guðmundar kom fram að árlegir styrkir SÚN til íþrótta í Neskaupstað nemi 15-20 milljónum króna.
Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN og Petra Lind Sigurðardóttir, formaður Þróttar.