Rósey: Við trúum þessu ekki enn
Rósey Björgvinsdóttir, fyrirliði FHL í fyrstu deild kvenna í knattspyrnu, segir leikmenn liðsins enn vart trúa þeirri staðreynd að liðið hafi tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Það var gulltryggt með 5-1 sigri á ÍBV á heimavelli í dag.„Við erum ekki enn farnar að trúa þessu. Þetta er frekar óraunverulegt – en þó geggjað,“ sagði Rósey eftir sigurinn í dag.
Eftir úrslit annarra leikja í fjórtándu umferð deildarinnar í gær var ljóst að FHL gæti tryggt úrvalsdeildarsætið með sigri. ÍBV þurfti á móti á stigum að halda til að geta orðið annað þeirra liða sem fylgir FHL upp.
„Við erum komnar á þann stað að við erum sigurvissar fyrir hvern leik. Við höfðum engu að tapa fyrir leikinn í dag því forskot okkar í deildinni er gott. Tap hefði engu breytt en á sama tíma var meira undir hjá ÍBV.
Mér fannst vera smá stress í okkur í fyrri hálfleik. Þær sóttu hratt á okkur með löngum boltum sem við réðum ekki nógu vel við. Þess vegna var ég ánægð með að vera 1-0 yfir í hálfleik. Við vissum að við gætum tekið yfir seinni hálfleikinn með mörkum, sem við gerðum. Í lokin var aftur komið smá stress í okkur þannig að skipulagið skorti en við héldum út.“
Sjálfstraustið jókst með sigri hverjum
Liðið kom upp úr annarri deildinni fyrir sumarið 2022. Það sumar blandaði liðið sér í toppbaráttuna á tímabil. Í fyrra gekk verr og um tíma var liðið í fallbaráttu. Væntingarnar voru því hóflega fyrir þetta sumar.
„Ef einhver hefði sagt mér þá að við yrðum komnar upp með fjóra leiki eftir þá hefði ég ekki trúað honum. Fyrir tímabilið hugsaði ég bara um að við yrðum að halda okkur uppi.
Við fórum að hafa trú á þessu þegar það komu nokkrir sigrar í röð. Maður hugsaði aðeins hvort það væri tap á leiðinni en við héldum áfram að vinna og þá kom sjálfstraustið. Nú líður okkur eins og við getum ekki tapað. Jafnvel þegar við lendum undir þá líður okkur alltaf eins og við getum komið til baka.“
Kjarni af heimastelpum
Rósey, sem er fædd árið 2004, er alin upp eystra og spilaði sína fyrstu leiki fyrir FHL sumarið 2018. Þeir voru tveir. Sumarið 2019 kom hún ekki við sögu í meistaraflokksleikjum en frá sumrinu 2020 hefur hún verið fastamaður í liðinu. Hún á nú að baki 77 deildarleiki tvö mörk, bæði frá í fyrra. Hún segir það mikið tækifæri að fá að spila í úrvalsdeildinni.
„Þetta verður mikið tækifæri fyrir okkur heimastelpurnar. Við höfum myndað góðan kjarna frá því við vorum í annarri deildinni, þótt við misstum nokkrar fyrir þetta tímabil, en allt af fengið frábæra erlenda leikmenn til okkar og í sumar small það fullkomlega. Það verður geggjað að fá þessi lið austur til að spila en þótt þau séu með stóra leikmenn þá verðum við að líka að sýna sjálfstraust til að mæta þeim.“