Íþróttir helgarinnar: Karfa, knattspyrnuakademía og merkisafmæli

hottur_thorak_karfa_11102012_0008_web.jpg
Nóg verður við að vera á íþróttasviðinu á Austurlandi um helgina. Höttur tekur á móti Reyni Sandgerði í fyrstu deild karla í körfuknattleik, knattspyrnuakademía verður í Fjarðabyggðarhöllinni og Huginn Fellum fagnar áttræðisafmæli sínu.

Leikur Hattar og Reynis verður í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum í dag klukkan 18:30. Hattarliðið hefur byrjað vel, unnið þrjá af sínum fyrstu fjórum leikjum. 

Þriðji sigurleikurinn kom í Kópavogi um síðustu helgi þar sem liðið vann Augnablik 71-76. Sigurinn var samt nokkuð öruggur, Hattarliðið var með þægilega forustu mest allan leikinn sem varð mest um tuttugu stig í lok þriðja leikhluta. Frisco Sandidge var stigahæstur sem fyrr með 23 stig auk þess sem hann tók 24 fráköst.

Í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði verður Knattspyrnuakademía Tandrabergs fyrir 3. -7. flokk karla og kvenna. Stærsta nafnið í kennarahópnum er Atli Eðvaldsson, fyrrum þjálfari íslenska landsliðsins og atvinnumaður í Þýskalandi til margra ára.

Auk hans þjálfa Úlfar Hinriksson landsliðsþjálfari U17 kvenna, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir leikmaður Breiðabliks og landsliðskona, Brynjar Gestsson þjálfari KFF, Srdjan Rajkovic leikmaður Þórs Akureyri, Eysteinn Húni Hauksson þjálfari Hattar, Óli Stefán Flóventsson þjálfari Sindra, Guðrún Ása Jóhannsdóttir fyrrverandi þjálfari hjá Fylki, Atli Freyr Björnsson kírópraktor, Moli yfirþjálfari yngri flokka Fjarðabyggðar og fleiri.

Þá verður haldið upp á áttatíu ára afmæli Hugins Fellum í Fellaskóla með skák- og borðtennismótum. Skákmótið hefst í kvöld klukkan 20:00 en borðtennismótið er á laugardagsmorgun klukkan 11:00. Mótin eru öllum opin, ungum sem öldnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar