Íþróttir helgarinnar: Ístöltið á morgun

hans_kjerulf_og_jupiter1.jpg
Ístölt hestamannafélagsins Freyfaxa verður haldið á Móavatni í landi Tjarnarlands í Hjaltastaðaþinghá á morgun. Körfuknattleikslið Hattar heimsækir Reyni í Sandgerði í kvöld. Þá stendur Skotfélag Austurlands fyrir námskeiði í bogfimi um helgina.

Ístöltkeppnin byrjar klukkan 10:00 á morgun. Byrjað verður á að keppa í tölti 16 ára og yngri, síðan er keppt í áhugamannaflokki, B-flokki, A-flokki og loks opnum flokki.

Þorbjörn Hreinn Matthíasson varðveitir Skeiðdrekann, sigurlaunin í A-flokki gæðinga, síðan í fyrra. Hans Kjerúlf vann þá Ormsbikarinn fyrir opnum flokki og Frostrósina fyrir B-flokk gæðinga.

Höttur heimsækir Reyni í Sandgerði í fyrstu deild karla í körfuknattleik í kvöld. Höttur tapaði fyrir Val um síðustu helgi, 92-87. Leikurinn var jafn allan tíman en þriggja stiga karfa í síðustu sókn Vals gerði út um leikinn.

Staða Þróttar í efstu deild kvenna í blaki er sterk eftir 3-0 sigur á Fylki og KA síðustu tvær helgar. Karlaliðið tapaði á móti fyrir KA um síðustu helgi og Stjörnunni þar áður, 1-3 í bæði skiptin og er í fimmta sæti. 

Liðin eru í fríi um helgina en í morgun var dregið í undanúrslitum bikarkeppninnar. Karlaliðið mætir þar Stjörnunni en kvennaliðið Aftureldingu. Báðir leikirnir verða í Laugardalshöll laugardaginn 23. mars.

Skotfélag Austurlands stendur fyrir námskeiði í bogfimi í Bragganum við Sláturhúsið á Egilsstöðum á um helgina en bogfimideild var nýverið stofnuð innan félagsins. Kennt verður í tveimur hópum frá 13-20 á morgun og 10-17 á sunnudag. Farið verður yfir öryggisreglur, meðferð boga og skottækni kennd. Skráning á námskeiðið er á netfangið bjarni hjá skaust.net.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar