Íþróttir: Nær Höttur öðru sætinu?

hottur_hamar_karfa_16022012_0017_web.jpgÞað er mikið undir hjá Hetti í körfuboltanum í kvöld en liðið tekur á móti Breiðabliki í síðustu umferð deildarinnar. Blaklið Þróttar tekur á móti Ými á morgun. Þá er austfirskt skíðafólk á faraldsfæti um helgina.

 

Hart er barist um annað sætið í 1. deild karla í körfuknattleik sem veitir heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Skallagrímur er með tveggja stiga forskot á Hött en heimsækir í kvöld deildarmeistarana í KFÍ á Ísafirði. Þar fer bikar á loft og búist er við fullu húsi þar sem Ísfirðingar fagna titlinum. Því má búast við að þeir leggi allt í leikinn.

Leikur Hattar gegn Breiðabliki hefst klukkan 18:30, 45 mínútum fyrr en aðrir leikir umferðarinnar. Vinni Höttur og nái Skallagrími nær liðið einnig öðru sætinu á innbyrðisviðureignum. Þriðja liðið í baráttunni um annað sætið er síðan Hamar sem heimsækir ÍG í Grindavík.

Leikurinn skiptir Blika líka málið. Þeir eru jafnir ÍA, sem mætir Ármanni, að stigum en standa verr að vígi í innbyrðisviðureignum. Þeir verða því að vinna Hött til að eiga séns á fimmta sætinu sem er hið síðasta sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni.

Þróttur Neskaupstað tekur á móti Ými í 1. deild kvenna í blaki á morgun. Leikurinn hefst klukkan 13:30 í íþróttahúsinu í Neskaupstað og er frítt inn. 

Þetta er síðasti heimaleikur vetrarins og skiptir miklu máli. Fjögur efstu lið deildarinnar fara í úrslitakeppnina. Þróttur er í fimmta sæti en Ýmir í því fjórða. Beint útsending verður frá leiknum á: http://www.ustream.tv/channel/throtturnesblak

Nóg er að gera hjá skíðafólki um helgina. Krakkar úr austfirsku félögunum, Skíðafélaginu í Stafdal og Skíðafélagi Fjarðabyggðar, heimsækja  nágrana sína í Mývetningi heim og taka þátt í Kröflumótinu sem nú er haldið í fyrsta skipti. Mótið er ætlað 9-12 ára og verður þar ýmislegt skemmtilegt á dagskrá auk hefðbundinnar skíðakeppni.

Meistaramót 11-12 ára fer fram í Bláfjöllum og eiga Austfirðingar þátttakendur þar. Á sama tíma verður í nógu að snúast hér heima því þá fer fram Bikarmót 13-14 ára í Oddskarði og má þar búast við skemmtilegri keppni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.