Þróttur lagði KA í blaki
Kvennalið Þróttar í blaki vann öruggan sigur á KA í fyrsta leik tímabilsins í Mikasa deildinni 3-0 þegar liðin mættust í Neskaupstað á laugardag.
Bæði liðin virtust vera frekar ryðguð eftir sumarið og hrinan fór hægt af stað. Þróttur byrjaði þó af meira öryggi og komst í 8 stiga mun. KA var skilið eftir og Þróttur hreinlega valtaði yfir Akureyringana í fyrstu hrinu, 25 stig á móti 8 hjá KA.
Önnur hrinan byrjaði með aðeins meiri ákefð en sú fyrsta. Þróttur tók strax forystuna og komst í nokkurra stiga mun. KA tók sig þá saman í andlitinu og minnkaði muninn í einungis tvö stig. Gestgjafarnir létu það ekki viðgangast og slitu sig aftur frá KA og unnu aðra hrinu með 25 stigum á móti 19 stigum KA.
Í þriðju hrinu urðu KA-ingar hreinlega eftir í startinu og gestgjafarnir náðu 10 stiga mun. KA stelpurnar sættu sig ekki við það og héngu í Þrótturunum það sem eftir var. Þeim tókst þó ekki að minnka bilið til muna, en þriðja hrina endaði með 25 stigum Þróttar á móti 18 stigum KA.