Rúmar 36 milljónir til austfirskra aðildarfélaga KSÍ

KSÍ greiðir 453 milljónir króna til aðildarfélaga KSÍ vegna EM í Frakklandi og af þeim koma rúmar 36,5 milljónir til austfirskra aðilidarfélaga.



Á ársþingi KSÍ sem fram fór í febrúar var tilkynnt að að 300 milljónum yrði úthlutað á árinu til aðildarfélaga KSÍ sem sérstakt EM framlag eða um 25% af greiðslunni frá UEFA. Í samræmi við auknar greiðslur UEFA til KSÍ vegna EM ákvað stjórn KSÍ að hækka framlagið til aðildarfélaga sambandsins í 453 milljónir sem er um 25% af heildargreiðslu UEFA. Stjórn KSÍ ákvað einnig hvernig greiðslurnar skiptast á milli aðildarfélaga. Framlag til aðildarfélaga byggist einkum og sér í lagi á stöðu meistaraflokks karla og kvenna í deildunum síðastliðin þrjú ár, eða tímabilið sem Evrópukeppnin stóð yfir.

Upphæðirnar skiptast þannig milli liðanna á svæðinu: Fjarðabyggð: 9.695.000, Huginn: 8.034.000, Leiknir: 7.682.000, Höttur: 6.185.000 og Einherji: 5.027.000.

Er það skýrt tekið fram að veittum fjármunum sem veitt er til aðildarfélaga skuli eingöngu varið til knattspyrnutengdra verkefna.


Þakklæti efst í huga

Magnús Már Þorvaldsson, formaður Einherja,segir það ligggja í hlutarins eðli að hvert félag muni um styrk sem þennan.

„Þessu er án efa fagnað víða, eðlilega mismikið eftir umsvifum, en það gerum við Einherjar svo sannarlega með þakklæti efst í huga. Hef ég bæði í töluðu orði og rituðu máli komið á framfæri þakklæti til hlutaðeigandi fulltrúa knattspyrnusambandsins sem ákvörðuðu framlagið okkur til handa. Það er eftirtektarvert að fjármunirnir eru tilkomnir fyrir glæsilega framgöngu landsliðs Íslands og við hljótum að binda vonir við að framhald verði á um ókomna tíð, það mun koma öllum til góða,“ segir Magnús.

Magnús segir að skemmtilegi hluti stjórnarsetu í íþróttafélagi sé tækifærið til að umgangast leikmenn á öllum aldri, þjálfara og aðstandendur, starfið í aðdraganda hvers tímabils, vinnan í kringum leiki ásamt ýmsu öðru sem varðar hin mannlegu samskipti.

„Leiðinlegri, eða kannski fremur erfiðari, hlutinn er sú vinna sem fjáröflun felur í sér. Stundum þarf mikið til að fá í kassann 50-100 þúsund krónur en í þungum rekstri telur hver króna. Þeir sem eru í stjórn verða að vera tilbúnir að leggja ýmislegt á sig í þágu félags síns og fórna stundum sem ellegar færu í vinnu heima fyrir þar sem verkefnum er slegið á frest tímabundið.“


Þarf samt að leita leiða til að reka félagið

Magnús segir þá sjálfboðavinnu sem innt er af hendi þágu æskulýðs- og íþróttastarfs um land allt seint verða metna til fjár en á henni grundvallast allt starfið.

„Styrkveiting KSÍ sem fellur í hlut Einherja er hægt að líta á sem umbun stjórnar og hollvina við rekstur á félaginu sem er þrátt fyrir smæð sína með umfangsmikið starf. Þannig kemur sem dæmi bróðurpartur barna á grunnskólaaldri að starfi félagsins í fótbolta og- eða blaki. Það vekur athygli innan knattspyrnuhreyfingarinnar að Einherja skuli auðnast að halda úti meistaraflokki karla og kvenna með heimamenn í meirihluta beggja liða.

Þegar þess er gætt að ein keppnisferð meistaraflokks kostar nokkur hundruð þúsund krónur er fimm milljón króna styrkur, sem beinlínis er ætlað til knattspyrnutengdra verkefna, beinlínis himnasending og felur í sér mikla hvatningu og staðfestingu á því blómlega starfi sem unnið er innan íþróttafélaganna sem í hlut eiga. Um leið og við fögnum happafeng vitandi að styrkurinn léttir undir verðum við eftir sem áður að leita allra leiða til að reka félagið. KSÍ fjármunirnir gefa okkur sem öðrum tækifæri sem ekki voru í augsýn og með áframhaldandi aðgæslu mun okkur án efa farnast vel.“

Ljósmynd: Björgvin Þórarinsson. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar