„Sagði við bekkinn að markvörðurinn myndi skora“

Einherji vann um helgina frækilegan 6-2 sigur á Knattspyrnufélagi Vesturbæjar (KV), efsta liði þriðju deildar karla á Vopnafirði. Einherji var 0-2 undir í hálfleik. Markvörður liðsins var meðal markaskorara.

„Við ræddum fyrir leikinn að það væri engin pressa á okkur og engin vænti þess að við myndum vinna þótt auðvitað vildum við það.

Við lékum á móti hvössum vindinum í fyrri hálfleik og vorum 0-2 undir í hálfleik. Í hálfleik töluðum við um að við hefðum ekki spilað illa þótt við hefðum ekki verið frábærir.

En við vissum líka að með vindinn í fangið yrði seinni hálfleikurinn ekki auðveldur fyrir KV. Við skoruðum snemma í seinni hálfleik og það gaf okkur byr í seglin,“ segir Ash Civil, þjálfari Einherja.

Spiluðum flottan sóknarleik

Það var Ruben Munoz sem skoraði fyrir Einherja strax á 47. mínútu og Todor Hristov jafnaði á 51. Heiðar Snær Ragnarsson kom Einherja yfir á 569. mínútu og Todorr bætti við á 66. mínútu. Án þess að nokkuð sé tekið á Vopnfirðingum þá báru mörkin varnarmönnum og markveðri KV ekki fagurt vitni, en þeir misstu framhjá sér og yfir langa bolta.

„Það er rétt að varnarleikur þeirra var ekki sannfærandi og sennilega var staðan orðin 6-2 áður en þeir áttuðu sig á að þeir þyrftu að færa vörnina aftar. Við spiluðum á móti mjög flottan sóknarleik og gerðum það rétta.“

Sigurinn veitir andrými

Þrír leikmenn skoruðu sitt fyrsta mark fyrir Einherja, þar á meðal markvörðurinn, Björgvin Geir Garðarsson, 18 ára, sem hefur verið aðalmarkvörður liðsins frá því um miðjan júlí.. Á 69. mínútu spyrnti hann frá marki sínu, boltinn skoppaði einu sinni áður en hann sveif í boga yfir markvörð KV sem náði þó í boltann að lokum en var þá að mati aðstoðardómara kominn yfir marklínuna. Erfitt er að sjá hvort það sé rétt af upptöku.

„Markverðir skora ekki í hverjum leik. Tveimur mínútum fyrr hafði hann komið markverði KV í mikil vandræði eftir útspark og þegar hann bjó sig undir að sparka á ný sagði ég við bekkinn að hann myndi skora ef markvörður KV færi ekki varlega. Við svona aðstæður, einkum á okkar velli, má ekki leyfa boltanum að skoppa.“

Eiður Orri Ragnarsson skoraði svo sjötta markið á 73. mínútu. Með sigrinum komst Einherji í 20 stig sem þýðir að liðið er í 9. sæti, fimm stigum frá fallsæti. Liðið mætir um næstu helgi botnliði Álftaness á útivelli. „Þetta var virkilega mikilvægur sigur. Við höfum nú fengið sex stig úr síðustu þremur leikjum og það léttir aðeins af okkur pressunni fyrir leikinn gegn Álftanesi,“ segir Ash.

Liðið í fallsætinu er hitt Austfjarðaliðið, Huginn/Höttur, sem um helgina tapaði fyrir Ægi úr Þorlákshöfn á Vilhjálmsvelli. Staðan var 0-3 eftir 70. mínútur en þá náðu þeir Jesus Perez úr víti og Knut Erik Myklebust að klóra í bakkann fyrir Hött. Ægir bætti hins vegar við fjórða markinu á 87. mínútu og þar með voru úrslitin ráðin. Höttur heimsækir Vængi Júpíters, sem eru í 10. sæti, um næstu helgi.

Kvennaliðið berst um að komast upp

Í annarri deild karla vann Fjarðabyggð Dalvík/Reyni 1-3 á útivelli. Filip Sakaluk og Hákon Huldar Hákonarson skoruðu undir lok fyrri hálfleiks og Jose Antonio skoraði þriðja markið á 70. mínútu. Fjarðabyggð siglir lygnan sjó um miðju deildarinnar.

Í Lengjudeildinni fór Leiknir vestur á Ísafjörð og tapaði 2-0 fyrir Vestra í rigningu og roki. Meiðsli og leikbönn eru farin að setja svip sinn á Leiknisliðið sem var aðeins með tvo varamenn á skýrslu í gær. Leiknir er í 11. og næst neðsta sæti, jafnt Þrótti Reykjavík að stigum en Þróttur með betra markahlutfall.

Í annarri deild kvenna á Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir í mikilli baráttu við HK en einkum Grindavík um að komast upp um deild. HK er efst með 31 stig úr 14 leikjum en Grindavík og Austfjarðaliðið eru bæði með 26 stig. Grindavík er þó með betra markahlutfall og aðeins búið með 12 leiki en Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir 13. Austfjarðaliðið vann í gær Álftanes á Reyðarfirði 4-0. Jóhanna Lind Stefánsdóttir skoraði tvö mörk og þær Shakira Duncan og Sigmundína Sara Þorgrímsdóttir sitt markið hvor.

Mynd: UMF Einherji


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.