Samantha og Emma yfirgefa FHL

Emma Hawkins og Samantha Smith, sem samanlagt hafa skorað um 40 mörk fyrir FHL í fyrstu deild kvenna í sumar, eru báðar á leið frá félaginu. Liðið tryggði sér um síðustu helgi sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst er Samantha á leið til Breiðabliks, sem þessa stundina er í öðru sæti úrvalsdeildarinnar. Þess er vænst að gengið verði endanlega frá félagaskiptunum síðar í dag. Samantha er 23 ára sóknarmaður frá Bandaríkjunum sem gekk til liðs við FHL í vor.

Lengra er síðan gengið var frá vistaskiptum Emmu til Dam­aien­se í Portúgal. Liðið spilar þar í efstu deild og er Þorlákur Árnason þjálfari þess. Emma hélt af landi brott í gær. Liðið er staðsett í Amadora, fjórðu stærstu borg Portúgals, norðvestur af höfuðborginni Lissabon.

Emma er einnig 23ja ára sóknarmaður frá Bandaríkjunum. Hún kom til FHL um leið og Samantha en hún skoraði 24 mörk í 14 deildarleikjum,

Þar sem lokað hefur verið fyrir félagaskipti annarra deilda en úrvalsdeildanna á Íslandi mun FHL ekki fá til sín leikmenn í þeirra stað. Emma og Samantha skoruðu samanlagt 39 af 55 mörkum liðsins í sumar.

Liðið getur tryggt sér deildarmeistaratitilinn um næstu helgi þegar það mætir Gróttu á útivelli en Seltjarnarnesliðið er í öðru sæti deildarinnar. Jafntefli dugir FHL.

Emma Hawkins í leik gegn HK í sumar. Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar