Samfélagið allt stendur með okkur

„Blakið náði mikilli festu hérna og hefur haldið því áfram,” segir Unnur Ása Atladóttir, framkvæmdastjóri blakdeildar Þróttar í Neskaupstað, í samtali við þáttinn Að austan á N4.



Unnur Ása segir þann mikla stuðning sem deildin hefur frá stjórninni, styrktaraðilum og samfélaginu öllu skipta höfuðmáli í blómlegu starfi hennar.

„Þetta er auðvitað gríðarleg vinna og utanumhald og gott fólk sem hefur staðið að deildinni. Við höfum verið heppin að fá fagfólk til að vinna með okkur og samfélagið stendur saman í að halda þessu við. Við erum einnig með öfluga styrktaraðila og gætum ekki staðið í þessu öðruvísi,” segir Unnur Ása og vísar þá helst í tíð keppnisferðalög liðanna, bæði í yngri flokkum og meistaraflokkum.

Öflugasta yngri flokka starf á landinu

Meistaraflokkur kvenna náði ótrúlegum árangri á síðasta keppnistímabili, þar sem þær urðu þrefaldir meistarar. „Kvennaliðinu hefur gengið betur og verið lengur, en karlarnir byrjuðu aftur og eru nú að spila fjórða árið sitt í úrvalsdeild. Það er í fyrsta sinn í ár sem við erum með frekar ungt karlalið, þetta voru gömlu kempurnar sem ætluðu að starta meistaraflokksliðinu aftur,” segir Unnur Ása en bætir því við að í dag eigi liðið oft erfitt að ná í bílstjóra þegar liðið þarf á milli staða þar sem það sé svo ungt, en bæði liðin séu orðin þannig og því ljóst að mikil uppbygging hafi orðið í íþróttinni á á staðnum undanfarin ár.”

Unnur Ása segir engan vafa leika á því að blakdeild Þróttar haldi úti öflugasta starfi yngri flokka á landinu. „Við erum með lang fjölmennustu hópana þó svo við séum langt frá því að vera stærsti staðurinn, við mætum á öll mót og erum með flestu liðin.

Unnur Ása segir áhuga heimamanna á íþróttinni mikinn og fólk duglegt að mæta á leiki. „Það er bara útkall þegar úrslitaleikir eru og húsið fyllist, þar sem allir standa stoltir með sínu liði. Það er ekki bara fólk héðan úr Neskaupstað, heldur einnig af fjörðum í kring, samfélagið allt stendur með okkur.”

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar