„Sé ekki fyrir mér að byrjað verði aftur um miðjan nóvember“

Leiknir Fáskrúðsfirði var ekki í samfloti með öðrum austfirskum liðum í erindi þeirra til Knattspyrnusambands Íslands um að Íslandsmótið yrði blásið af vegna Covid-19 faraldursins enda hagsmunir félagsins töluvert aðrir en hinna. Formaður knattspyrnudeildar þess viðurkennir þó að staðan sé að verða þröng.

Keppni í Íslandsmótinu í knattspyrnu var stöðvuð fyrir rúmri viku eftir ítrekuð tilmæli sóttvarnalæknis um að íþróttir með snertingu yrðu ekki stundaðar á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem lagst hefur verið gegn ferðum milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar.

Stöðvunin gildir til 19. október en miðað við hve hægt hefur gengið að hemja faraldurinn á höfuðborgarsvæðinu verður að teljast líklegt að aðgerðirnar verði framlengdar. Samkvæmt reglum KSÍ ber að veita liðum viku til æfinga áður en keppnisleikir hefjast á ný.

Austurfrétt greindi frá því í gær að Höttur/Huginn, Fjarðabyggð og Einherji hefðu sameiginlega sent erindi á stjórn KSÍ um að Íslandsmótinu verði hætt. Eftir því sem næst verður komist hafa fleiri lið sent slík erindi.

Samkeppnisstaðan orðin skekkt

Samkvæmt reglum sem KSÍ gaf út í vor er stjórn heimilt að hætta keppni þegar 2/3 mótsins hafa verið spilaðir. Meðaltal stiga úr hverjum leik ræður þá hvaða lið falla eða fara upp um deildir. Þetta hlutfall er Leikni óhagstætt því liðið myndi þá falla úr fyrstu deild karla en hinum liðunum hagstætt því þau annað hvort ná þá að halda sér uppi eða skiptir ekki máli. Samkvæmt sömu reglugerð er gert ráð fyrir að Íslandsmótið geti staðið allt til 1. desember.

Staða Leiknis er því talsvert önnur en hinna austfirsku liðanna og því var félagið ekki með í erindinu. „Okkur var ekki boðið að vera með en hinir formennirnir vissu okkar afstöðu að við vildum reyna að klára mótið. Ég held samt að þrýstingurinn á að blása þetta af sé að aukast og kannski er það eina vitið.

Ef þetta á að dragast mikið lengur, eins og útlit er fyrir, þá verður þessu sjálfhætt. Ég sé ekki fyrir mér að byrjað verði aftur um miðjan nóvember. Þetta er að verða vitleysa, sum lið eins og til dæmis Vestri, hafa sent nánast allt liðið heim,“ segir Magnús Ásgrímsson, formaður knattspyrnudeildar Leiknis.

Enn möguleiki á að halda sér uppi

Leiknir er jafn Þrótti Reykjavík og Magna að stigum í sinni deild en með versta markahlutfallið. Leiknir á eftir útileik gegn Grindavík og heimaleik gegn ÍBV. Leiknir náði fjórum stigum gegn þeim í fyrri umferð mótsins og er ljóst að mótherjarnir fara hvorki upp né niður.

„Þetta líta kannski ekki út fyrir að vera þægilegir leikir en við fengum fjögur stig gegn þeim fyrr í sumar og hví ættum við ekki að geta fengið stig núna þegar þau hafa ekki að neinu að keppa,“ segir Magnús.

Tveir leikmenn Leiknis farnir heim

En samkeppnisstaðan er farin að skekkjast. Magni á eftir leik með Vestra sem hefur sent sína erlendu leikmenn heim. Þeir eru uppistaðan í Vestfjarðaliðinu og er því útlit að Vestri yrði með mjög reynslulítið og því trúlega veikburða lið í leiknum. Aðspurður um hvort hann telji að hægt væri að opna fyrir félagaskipti áður en mótið hæfist á ný svaraði Magnús: „Ég held það væri ekki sanngjarnt heldur.“

Fleiri lið hafa sent erlenda leikmenn heim síðustu daga enda róðurinn farinn að þyngjast. Samningar marga leikmanna eru á þá vegu að félögin skaffa leikmönnunum atvinnu, en bregðist það þurfi þau að borga þeim laun. Margir leikmenn hafa verið í sumarstörfum sem nú er lokið og þurfa liðin því að borga þeim sjálf. Þá skaffa félögin leikmönnunum í flestum tilfellum húsnæði.

Tveir erlendir leikmenn Leiknis fóru heim í byrjun vikunnar. Magnús segir persónulegar ástæður leikmannanna hafa ráðið mestu þar um en um leið gat félagið minnkað við sig um eina íbúð. Hann segir stöðu Leiknis aðra en margra annarra félaga þar sem leikmenn þess séu með eigin atvinnu en félagið útvegi þeim aðeins húsnæði og þeir séu því minni baggi á því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.