Seinka þurfti leiknum því dómarinn missti af fluginu
Leik Hattar og Vals í fyrstu deild karla í körfuknattleik, sem fram fór á fimmtudaginn, seinkaði verulega því annar dómara leiksins missti af flugvélinni sem hann átti að taka. Körfuknattleikssamband Íslands ætlar að bæta Valsmönnum auka ferðakostnað.
Leikurinn átti að hefjast klukkan 18:30 en hófst ekki fyrr en 19:15 þar sem annar dómarinn missti af fluginu sem hann átti bóka. Hægt var að senda hann um borð í þá næstu til að leikurinn gæti farið fram. Vegna þessa þurftu Valsmenn að gista yfir nóttina á Egilsstöðum þar sem síðasta flug var farið áður en leiknum lauk.
Hannes Jónsson, formaður KKÍ segir að Valsmönnum verður bættur sá kostnaður. „Okkur þykir að sjálfsögðu afar miður að þetta atvik skuli hafa komið síðastliðinn fimmtudag. KKÍ heldur úti umfangsmiklu mótahaldi og mistök sem þessi koma afar sjaldan fyrir. Það er ljóst að um mannleg mistök voru að ræða sem urðu þess valdandi að þessi staða kom upp. Valur mun ekki þurfa að greiða fyrir þennan aukakostnað.“
Valur vann annars leikinn 61-71. Þeir voru með umtalsverða yfirburði og leiddu 32-42 í hálfleik. Með góðum kafla í byrjun fjórða leikhluta tókst Hetti að minnka muninn í 59-61 en þá hrökk allt aftur í baklás. Frisco Sandidge var þeirra stigahæstur með 17 stig. Höttur mætir næst Augnabliki í Kópavogi á laugardag.