Seinkuðu félagsmótinu vegna hita
Seinka þurfti upphafi félags- og úrtökumóts Hestamannafélagsins Freyfaxa um þjóðhátíðarhelgina vegna hita. Undirbúningur félagssvæðisins að Stekkhólma er nú á lokametrunum en Fjórðungsmót hestafólks hefst þar eftir slétta viku.„Við ákváðum daginn áður en mótið byrjaði að fresta upphafi þess fram eftir degi vegna hitabylgju og byrjuðum ekki fyrr en á fimmta tímanum. Ég er efins um að það gerist nokkurn tíma aftur,“ segir Guðrún Agnarsdóttir, formaður Freyfaxa.
Um var að ræða tveggja daga mót haldið 17. og 18. júní. Fyrri daginn var úrtakan en síðan keppt til úrslita innan félagsins daginn eftir. Af helstu úrslitum má nefna að Hans Kjerúlf fékk verðlaun fyrir gæðing mótsins sem var Dama frá Hrafnagili.
Þá segist Guðrún afar ánægð með góða þátttöku í barnaflokki. „Þar voru níu keppendur og hafa ekki verið svo margir undanfarin ár sem lofar góðu fyrir framtíðina.“
Slétt vika er nú í að Fjórðungsmótið hefjist á Stekkhólma í umsjá Freyfaxa. Undirbúningur er í fullum gangi við að snyrta félagssvæðið og fá sjálfboðaliða við starfa við mótið.
„Það þarf að slá og raka svæðið og mála og laga byggingar fyrir utan annað skipulag. Það eru líka margir starfsmenn sem koma að því sem ritarar, gæslu, í sjoppunni og víðar. Hjá litlum félögum er heilmikil áskorun að láta allt í kringum svona mót ganga upp en félagssvæðið er nú langt komið og allur undirbúningur á réttu róli.“
Guðrún segist ekki tilbúin að gefa upp stöðu skráninga í mótið því þeim lýkur ekki fyrr en miðnætti á morgun. „Það er landlægt að þunginn í svona skráningum er rétt áður en frestinum lýkur.“
Mynd: Sigrún Júnía Magnúsdóttir