Sundlaugin í Selárdal er orðin sjötug
Nú eru liðin 70 ár síðan að sundlaugin í Seldárdal í Vopnafirði var formlega vígð og tekin í notkun. Það var ungmennafélagið Einherji sem stóð að byggingu sundlaugarinnar á sínum tíma.Bjartur Aðalbjörnsson fjallar um málið á heimasíðu Einherja. Þar segir að í gær, 13. ágúst, voru liðin 70 ár frá vígslu sundlaugarinnar í Selárgljúfrum í Selárdal en hún var vígð sumarið 1950. Í daglegu tali er hún oft nefnd Sundlaugin í Selárdal, Selárlaug eða Selárdalslaug. Bygging hennar var í höndum Einherja og komu allar deildirnar að byggingu hennar.
Elstu heimildir um laugina er að finna í fundargerðum frá árinu 1936 en þá var strax farið að huga að byggingu hennar í bænum. Það var þó ekki fyrr en árið 1947 að hafist var handa um byggingu hennar. Hefur Seinni heimstryjöldin eflaust haft þar áhrif á.
Bjartur segir á heimasíðunni: „Á þessum tíma var Sundlaugin í Selárgljúfrum eina heita laug Austurlands og var strax talin einn fallegasti baðstaður landsins. Laugin er Vopnfirðingum kær og geta þeir verið stoltir af forfeðrum sínum er lögðu mikið á sig til að geta tryggt ungum sem öldnum öruggan og góðan baðstað.“