Setti heimsmet á Leginum

Bretinn David Haze setti nýverið sitt áttunda heimsmet á róðrarbretti þegar hann réri eftir Leginum um miðjan október. Róðurinn reyndi verulega á þar sem vindurinn snerist á miðri leið.

David hefur sett sér það markmið að eiga besta tímann á lengsta fljóti eða stöðuvatni heims fyrir róður á standandi róðrarbretti (e. stand up paddle board). Eftir að hafa sjö slík met á Bretlandseyjum, meðal annars á Thames við Lundúni, snéri hann sér að Íslandi.

David ætlaði upphaflega út á Löginn 16. október en varð að fresta för um einn dag vegna veðurs. En þótt himininn væri heiður um morguninn og vindurinn hægur varð ferðin síður en svo vandræðalaust.

„Ég byrjaði ferðina við Lagarfljótsbrúna á Egilsstöðum og ætlaði að róa inn eftir því golan stóð að utan. Þegar ég var búinn með um tvo kílómetra varð mér litið á símann minn og sá að kærastan mín hafði ítrekað reynt að hringja. Ég hringdi til baka og hún sagði bílinn fastan í for á bílaplaninu. Ég sneri við til að hjálpa henni. Okkur gekk ekkert að ýta bílnum en eftir nokkur átök varð okkur ljóst að handbremsan var á. Þannig bættust fjórir kílómetrar við,“ segir David í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Leiðin sem David reri, inn að brúnni yfir ysta hluta Jökulsár í Fljótsdal innan við Hallormsstað, er 32 km. Hana fór hann á fimm og hálfum klukkutíma.

„Ég náði góðri ferð fyrsta klukkutímann og fór 6,5 km. Vatnið var stillt og umhverfið fallegt auk þess sem ég hafði smá vind í bakið. Á næstu klukkustund réri ég 7 km og á þeirri þriðju var ég á góðri leið með að ná 8 km þegar vindurinn snerist mér í mót. Þá varð þetta erfitt. Ég náði að setja undir mig hausinn og taka eitt róðrartak í einu.

Þegar sólin hvarf á bakvið fjöllin varð mér verulega kalt og ég hlaut fyrsta stigs kalsár. Ég á ekki að tapa neinu varanlega en ég er ekki enn komin með fulla tilfinningu í fingurna.“

Verst þykir David þó að hafa verið í kappi við tímann því þar með gat hann ekki stoppað á leiðinni til að taka myndir. „Útsýnið af vatninu er stórfenglegt því þaðan fæst annað sjónarhorn á fjöllin en af landi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.