Seyðfirðingar koma saman til að kveðja fótboltavöllinn
Kveðjuleikur verður leikinn á Seyðisfjarðarvelli á laugardag en til stendur að taka vallarstæðið undir íbúabyggð. Einn þeirra sem stendur að baki vellinum segir þá sem ólust upp með vellinum eiga þaðan fjölda æskuminninga og það að horfa á eftir vellinum sé eins og að kveðja vin. Almenn sátt sé þó við að þörf sé á íbúðum.„Við erum nokkrir Seyðfirðingar sem búum syðra en hittumst til að spila fótbolta yfir veturinn. Þegar tilkynnt var að völlurinn yrði nýttur undir byggingaland kom Nik Chamberlain með þá hugmynd inn í hópinn að það þyrfti að kalla saman lokaleik.
Ég og Rúnar Freyr Þórhallsson tókum boltann og þróuðum hugmyndina áfram,“ segir Birkir Pálsson uppalinn Seyðfirðingur og fyrrum leikmaður Hugins.
Leituðu uppi fyrrum leikmenn
Þeir gengu í að hafa samband við einstaklinga sem spilað hafa með Huginn. Birkir segir að notast hafi verð við heimasíðu KSÍ, þar sem upplýsingarnar ná 20 ár aftur í tímann. „Við höfðum líka samband við flest alla sem við mundum eftir. Á Seyðisfirði var aldrei meistaraflokkur kvenna, en þó var sameinað lið með Hetti um tíma og stelpur úr því liði sem héldu áfram í Hetti, auk þess sem stelpur héðan hafa líka spilað með fleiri liðum. Við buðum þeim líka. Þetta er því ótrúlegur fjöldi sem við höfum haft samband við.
Af þessum hópi hafa um 50 manns boðað komu sína. Má þar meðal annars nefna Friðjón Gunnlaugsson, sem spilað hefur flesta leiki fyrir félagið, Jóhann Stefán Jóhannsson, markahæsta leikmanninn, Sveinbjörn Jónasson og Jóhann Björn Sveinbjörnsson, sem báðir léku í úrvalsdeild og Ljubisa Radovanovic og Guðmund Magnússon, fyrrum þjálfara. Þá eru nokkrir leikmenn úr núverandi liði Hattar/Hugins í liðunum tveimur sem mætast á laugardag.
Skipar stóran sess í æskuminningunum
Birkir líkir því að horfa á eftir vellinum við að kveðja vin eða ættingja. „Maður á ótrúlega margar minningar frá vellinum. Hann var áður malarvöllur og ég man eftir því þegar ég var átta ára gamall og Valur kom til að spila. Guðni Bergsson var í liði Vals, hann spilaði seinni hálfleikinn með Huginn og skoraði eina mark liðsins. Svæðið og allt sem tengist Huginn skipar stóran sess í okkar æskuminningum og þess vegna er þetta eins og að kveðja góðan vin eða ættingja fyrir mörg okkar.“
Ekki hefur verið hægt að keppa á vellinum síðustu ár og nokkur umræða verið um framtíð hans. Eftir skriðuföllin í desember skortir byggingaland og var ákveðið að nýta vallarsvæðið undir það. Völlurinn á sér langa sögu, en í nýlegri grein hér á Austurfrétt var velt upp þeirri spurningu hvort um elsta vallarstæði landsins væri að ræða en það hefur verið nýtt frá árinu 1916.
Birkir segir almenna sátt um að nýta vallarstæðið.. „Eftir það sem gerðist heima vantar byggingaland og það er frábært að hægt sé að nýta hann því hann hefur verið ónýtur síðustu ár. En við höfðum kannski ekki gert okkur grein fyrir þessari miklu sögu auk þess sem talað hefur verið um minjar undir honum.“
Nauðsynlegt að hafa aðstöðu
Ekki liggja enn fyrir ákvarðanir um hvar aðstaða verður byggð upp eftir að völlurinn hverfur. Í tengslum við leikinn á laugardag er söfnun þar sem tekið er við frjálsum framlögum sem renna til nýrrar aðstöðu. „Það verður að vera aðstaða í boði. Þegar ég var lítill voru allir grasblettir sem í boði voru nýttir,“ segir Birkir.
Flautað verður til leiks klukkan 14:00 á laugardag. „Við finnum fyrir miklum áhuga, bæði frá leikmönnum sem fólkinu heima og öðrum sem voru í kringum fótboltann. Konurnar í sjoppunni voru til dæmis búnar að ákveða sjálfar að standa vaktina áður en við höfðum samband við þær,“ segir Birkir að lokum.