„Síðasta rósin í hnappagatið þennan veturinn“

Reyðfirðingurinn Ásmundur Hálfdán Ásmundsson stóð uppi sem sigurvegari á Evrópumeistaramótinu í keltneskum fangbrögðum sem fram fór í Brezt Frakklandi í síðustu viku.



Ásmundur Hálfdán varð Evrópumeistari í „Backhold“og hafnaði í þriðja sæti í „Gouren“ í +100 kílóa flokki.

Tveir fulltrúar frá UÍA tóku þátt í mótinu, en auk Ásmundar átti Hjörtur Elí Steindórsson sæti í landsliði Íslands í glímu.

„Þetta var bara mjög gaman, alveg frábært. Ég var í flokki með sjö öðrum þjóðum þannig að samkeppnin var mikil. Ég fór lengri leiðina að sigrinum, tapaði einni glímu, lenti í öðru sæti í mínu liði og keppti við sigurvegara hins riðilsins í undanúrslitunum.

Úrslitaglíman sjálf var ekki auðveld, en ég stóð mig vel og vann hana þrjú núll, en segja má að þessi sigur hafi verið síðasta rósin í hnappagatið þennan veturinn,“ segir Ásmundur sem hefur gengið afar vel í glímunni í vetur og er meðal annars handhafi Grettisbeltisins eftirsótta.

Ljósmynd: Ásmundur Hálfdán ásamt Marín Laufey Davíðsdóttur sem varð Evrópumeistari kvenna í Backhold. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar