Sigraði með að stökkva hæð sína

Daði Þór Jóhannsson úr Leikni Fáskrúðsfirði vann til gullverðlauna í hástökki á stórmóti ÍR um síðustu helgi. Hann jafnaði þar sinn besta árangur og lék eftir leik Gunnars á Hlíðarenda sem stökk hæð sína í fullum herklæðum.


„Ég stökk 1,69 metra. Ég er 1,68 og eitthvað,“ segir Daði Þór.

Stórmótið var gjöfult hjá honum því hann vann einnig silfurverðlaun í þrístökki. „Það hefur verið mín aðalgrein undanfarin 2-3 ár. Það er hins vegar að koma mikið af góðum strákum inn í minn aldursflokk,“ segir Daði sem keppir í flokki 16-17 ára.

Daði Þór er á fyrsta ári í Verkmenntaskóla Austurlands. Hann segist mæta í ræktina tvisvar sinnum í viku en á þriðjudögum leggur hann á sig ferðalag upp í Egilsstaði. „Ég hlakka til hverrar æfingar.“

Ofvirknin er kostur

Daði Þór hefur æft frjálsar í áratug. „Það er keppnisandinn, félagsskapurinn og frelsið sem heillar mig við frjálsíþróttirnar. Frelsið felst í að treysta bara á sjálfan sig, að þurfa ekki að treysta að einhver annar standi sig vel til að þér gangi vel.

Ég er alltaf að keppa við sjálfan mig, til að bæta mig og vinna hina um leið. Það er mjög góð tilfinning þegar maður vinnur loks einhvern.“

Daði Þór fær útrás fyrir hreyfiþörfina í frjálsíþróttum. „Ég er ofvirkur og vissa hreyfiþörf á dag sem er meiri en margra annarra. Það eru mínusar við ofvirknina líka í íþróttinni en heilt yfir myndi ég segja að plúsarnir væru fleiri. Það gefur mér visst forskot að þurfa að hreyfa mig svona mikið.“

Öflugir Austfirðingar

Samkeppnin er hörð. Í fyrsta lagi er Daði lágvaxinn miðað við hástökkvara. „Það eru samt ekki margir hávaxnir í hástökkinu í mínum aldursflokki.“

Að auki æfa samkeppnisaðilarnir af höfuðborgarsvæðinu í frjálsíþróttahöllum á veturna, með hlaupabrautum og gryfjum, en Austfirðingarnir eru í venjulegum íþróttahúsum.

Daði myndar ásamt Helgu Jónu Svansdóttur, Mikael Mána Freyssyni og Steingrími Erni Þorsteinssyni sterka sveit UÍA í frjálsíþróttum 16 ára og eldri. Strákarnir tveir kepptu einnig á mótinu um síðustu helgi þar sem Mikael Máni vann þrístökk karla.

„Við fjögur erum nokkuð ofarlega í okkar greinum eins og sést hefur á síðustu mótum. Þegar þjálfarar koma austur finnst þeim ótrúlegt hvað við erum öflug miðað við aðstæður.“

Næst á dagskrá Daða er Meistaramót Íslands eftir tvær vikur. „Ég stefni á Íslandsmeistaratitilinn í þrístökki en en veit það verður erfitt það eru mjög öflugir strákar að koma upp í minn flokk.“

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar