Sigurður Gunnar í liði ársins
Sigurður Gunnar Þorsteinsson, sem í vetur lék með körfuknattleiksliði Hattar, hefur verið valinn í lið ársins í úrvalsdeild karla.Tilkynnt var um valið í hádeginu í dag. Sigurður Gunnar lék alla 22 deildarleiki Hattar í vetur. Í þeim skoraði hann 12,6 stig að meðaltali og tók átta fráköst.
Það dugði Hetti ekki til að halda sér í deildinni. Sigurður Gunnar er hins vegar tíundi hæsti í deildinni yfir flest fráköst auk þess sem hann er 19 sé horft til útreiknings á framlagi.
Sé aðeins horft til íslenskra leikmanna er hann þriðji í röðinni yfir framlag, á eftir Ægi Þór Steinarssyni og Kristófer Acox, en lið ársins er aðeins skipað íslenskum leikmönnum.
Sigurður Gunnar verður ekki með Hetti í fyrstu deildinni næsta vetur en hann hefur skipt yfir í Tindastól. Bandaríkjamaðurinn Michael Mallory, sem varð næst stigahæstur að meðaltali í leik í deildinni í vetur, verður heldur ekki áfram.
Í stað hans hefur verið samið við Tim Guers, 25 ára bakvörð sem spilað hefur í Lúxemborg og Víetnam eftir að hann kláraði háskóla. Hann skoraði 22 stig, tók 7,5 fráköst og gaf 5,5 stoðsendingar á lokaári sínu í Saint Anselm háskólanum. Þá hafa samningar verið endurnýjaðir við þá David Guardia, Juan Luis, Sigmar Hákonarson og Brynjar Snær Grétarsson.
Sigurður Gunnar, liggjandi, stal mikilvægum bolta í lok leiks Hattar gegn Haukum í febrúar. Mynd: Körfuknattleiksdeild Hattar