Ásinn vann Bólholtsbikarinn

bolholtsbikar_2013_urslit_0305_web.jpg
Ungmennafélagið Ásinn fagnaði á sunnudag sigri í Bólholtsbikarnum í körfuknattleik eftir 58-46 sigur á Sérdeildinni 1, sigurvegurum tveggja síðustu ára, í úrslitaleik.
 
Sex lið skráðu sig til keppni í haust en fimm luku keppni. Á sunnudag fór fram úrslitakeppni fjögurra efstu liðanna í íþróttahúsinu á Egilsstöðum.

Sérdeildin 1, sem hafnaði í þriðja sæti forkeppninnar, vann Sérdeildina 2 í fyrri undanúrslitaleiknum. Liðin skiptust á að hafa forustuna en Sérdeildin 1 seig fram úr í fjórða leikhluta. Sérdeildin 2 fékk þrjú færi til að jafna í síðustu sókninni en þau geiguðu öll.

Hinn undanúrslitaleikurinn var mun hraðari og meira skorað í honum en mun minni spenna. Ásinn var með um tuttugu stiga forskot allan leikinn gegn Austra og vann 89-55.

Sérdeildin 1 og Austri mættust því í leiknum um þriðja sætið. Austri hafði þá bætt við sig leikmönnum frá undanúrslitunum. Sérdeildin hafði samt öruggt forskot allan leikinn og vann að lokum 78-49.

Ásinn, sem varð efstur í deildakeppninni með 16 stig líkt og Sérdeildin 2 en hafði betur í innbyrðis viðureignum, tók forustuna strax í fyrsta fjórðungi gegn Sérdeildinni 1 í úrslitaleiknum og hélt henni til loka. Helst var það í síðasta leikhluta sem saman dró með liðunum en það kom ekki í veg fyrir að nýtt nafn yrði skráð á bikarinn.

Þetta er í þriðja sinn sem UÍA og Bólholt standa fyrir bikarkeppni á Austurlandi í körfuknattleik. Fannar Magnússon var stigahæstur í keppninni, skoraði 159 stig í átta leikjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.