Skíði: Besta skíðafólk landsins á bikarmóti í Oddsskarði

Besta skíðafólk Íslands var samankomið í Oddsskarði um helgina þar sem fram fór Bikarmóts Íslands í alpagreinum. Keppendur UÍA skiluðu tvennum verðlaunum í hús.

„Það er langt síðan við höfum haldið fullorðinsmót af þessum styrkleika. Hér voru keppendur sem hafa farið á Ólympíuleika æskunnar og heimsmeistaramót ungmenna og viðbúið er að fari á stórmót í framtíðinni,“ segir Eðvald Garðarsson, formaður Skíðafélags Fjarðabyggðar og mótsstjóri.

Rut og Eyvindur með verðlaun


Alls mættu 28 keppendur til leiks og var þar á ferðinni mest af fremsta skíðafólki landsins, utan þess að nokkrir skíðamenn sem búa og æfa erlendis komu ekki. Fjórir keppendur voru frá UÍA, þau Eyvindur Halldórsson Warén, Rut Stefánsdóttir, Jóhanna Dagrún Daðadóttur og Sævar Emil Ragnarsson.

Rut náði bestum árangri Austfirðinganna, vann sinn flokk, 16-17 ára og varð í öðru sæti í heildarkeppninni í stórsvigi. Þessu náði hún með frábærri seinni ferð, en hún var þriðja í ungmennaflokknum og sjötta í heildarkeppninni eftir þá fyrri. Eyvindur komst einnig á pall er hann varð þriðji í ungmennaflokki í svigi.

Góðar aðstæður fyrir stórsvig


Bikarmótið skiptist í raun í þrjú mót: tvö svigmót og eitt stórsvigsmót. Keppendur fara tvær ferðar niður brekkuna í hverju þeirra og gildir samanlagður tími. Svigmótin fóru fram á laugardag. Þá snjóaði mikið og þurfti starfsfólk mótsins að skafa snjó úr brautinni.

Stórsvigið er hraðara og þarf því betri aðstæður. Þess vegna fór það fram í gær. Eðvald segir það hafa farið fram við framúrskarandi aðstæður, starfsfólk skíðasvæðisins hafi náð að troða snjóinn það vel að þegar búið var að taka til eftir keppnina voru engin för sjáanleg í brekkunum. „Þetta var mjög hart og skemmtilegt færi og það verður að hrósa bæði starfsfólki svæðisins og mótsins fyrir framúrskarandi vinnu um helgina.“

Frábært færi fyrir páskana


Meðal sjálfboðaliða helgarinnar voru nokkrir 11-12 austfirskir skíðaiðkendur sem gegndu hlutverk undanfara. Þeir fara niður brautirnar skömmu fyrir keppni, bæði til að meta aðstæður og ganga úr skugga um að allur búnaður sé í lagi. Vanalega eru aðeins eldri krakkar í þessum hlutverkum en sá aldurshópur var á Vestfjörðum á bikarmóti. „Þetta var skemmtileg reynsla fyrir þessa krakka, ánægjulegt að sjá hvað þau eru orðin flokin og gaman fyrir þau að sjá hvernig fullorðnu keppendurnir bera sig að.“

Páskarnir eru sá tími sem Íslendingar fara helst á skíði og segir Eðvald að útlitið sé gott í Oddsskarði fyrir vikuna. „Það er mikill snjó í fjallinu. Þetta verða skemmtilegir páskar, fólk getur hlakkað til að skíða langa daga í jafn góðu færi og nú er.“

Eyvindur H. Warén, lengst til hægri, á verðlaunapalli eftir svigkeppnina á laugardag. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.