Skólabókardæmi um hvað hægt er að gera
„Við móttökum viðurkenninguna með auðmýkt og stolti,“ segir Magnús Már Þorvaldsson, formaður Ungmennafélagsins Einherja á Vopnafirði, en það hlaut grasrótarviðurkenningu Knattspyrnusambands Íslands fyrir árið 2016 á ársþingi sambansins sem haldið var í Vestmannaeyjum um helgina.
Grasrótarsáttmáli Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, hefur verið við lýði í liðlega áratug en KSÍ varð aðili að sáttmálanum árið 2008.
Í umsögn KSÍ segir meðal annars; „Sumarið 2016 sendi Einherji lið til leiks í meistaraflokki, bæði í karla og kvenna, 4. og 5. flokki karla og 5. flokki kvenna, en á síðasta ári bjuggu 511 manns á Vopnafirði. Undanfarin ár hafa lið af landsbyggðinni átt undir högg að sækja m.a. vegna fólksfækkunnar og því er árangur og þátttaka Einherja á Íslandsmótum aðdáunarverð og til eftirbreytni. Slíkt væri ekki mögulegt nema með mikilli og óeigingjarnri vinnu sjálfboðaliða, stjórnarmanna, starfsmanna félagsins og annarra sem að félaginu koma. Einherji er skólabókardæmi um það sem hægt er að gera þegar allir leggjast á eitt og telur KSÍ því Einherja vera einstaklega vel að þessari viðurkenningu kominn.“
Iðkendur leita helst í fótboltann
Ungmennafélagið Einherji heldur úti skipulögðum æfingum árið um kring og segir Magnús Már að félaginu sé umhugað um að ráða starfsfólk sem sinni af alúð. „Stjórnin er vel meðvituð um forvarnargildi þess að krakkar og ungmenni stundi skipulagða hreyfingu. Er hlutfall nemenda sem æfingar stunda með félaginu hátt, æfa margir krakkar, einkum stelpur, bæði fótbolta og blak.“
Magnús segir að þrátt fyrir að félagið leggi upp með að fleiri íþróttagreinar séu í boði sé það þó svo að iðkendur leiti í fótboltann öðru fremur. „Þar hefur þáttur Einherja verið langstærstur, en líkt og fram kemur í umsögn KSÍ sendi Einherji lið til keppni á Íslandsmótinu í 4. og 5. flokki pilta og 5. flokki stúlkna, auk þess sem félagið hefur átt í samstarfi við félög á Austurlandi þar sem félagið lagði þeim til leikmenn. Það sem meira er félaginu hefur auðnast að koma, að ég vil meina, ótrúlega stórum hópi ungs fólks í meistaraflokka beggja kynja og tel það er staðfesta að starfið er öflugt. Það hlýtur að teljast markvert að í fyrrasumar átti meistaraflokkur kvenna í Einherja í keppni við sameiginlegt lið Austurlands og svo mun vera raunin á komandi sumri. Að þetta sé gerlegt grundvallast á starfi félagsins í barna- og unglingaflokkum.“
Ávinningurinn aldrei ofmetinn
Magnús Már segir viðurkenninguna hafa mikla þýðingu fyrir félagið. „Í sjálfboðaliðastarfi eru hlutaðeigandi að vinna sitt verk endurgjaldslaust. Fólk sem kýs að velja sér íþróttir sem vettvang veit sem er að þeir sem á annað borð fylgjast með þeim, en þeir eru býsna margir, hafa á því skoðanir hvernig tekst til. Það er gömul saga og ný að þeir sem telja sig hafa þörf fyrir að tjá sig eru oftar þeir sem óánægðir eru. Það skiptir ekki máli hvert málið er hverju sinni en neikvæðu raddirnar hljóma fremur en hinar jákvæðu.
Þeir sem mynda stjórn hverju sinni þurfa að brynja sig á stundum fyrir gagnrýninni en mestu varðar að þeir sem gefa sig að verkinu unna því og bera til félags síns skilyrðislausa löngun til að vinna því gott verk. Þegar starfið er síðan umbunað með jafn eftirtektarverðum hætti og grasrótarviðurkenning knattspyrnusambandsins er, fá hlutaðeigendur staðfestingu á að sú vinna sem þeir hafa verið vinna þykir markverð. Að þeir ásamt öllum þeim fjölda sem lagt hefur félaginu lið með margvíslegum hætti á síðastliðnum árum hefur þótt verðskulda viðurkenningu á æðsta stigi knattspyrnusambandsins. Þá hefur til mikils verið unnið."
Magnús segir að óháð öllum viðurkenningum muni markmiðið alltaf vera það sama; „Að leggja sig fram um að vinna félaginu eins gott verk og við verður komið, að gera betur í ár en á því síðasta. Mín skoðun er sú að ávinningur samfélagsins vopnfirska af öflugu starfi Einherja verður aldrei ofmetin.“
Ljósmynd: Svavar Valtýr Stefánsson, fyrrum stjórnarmaður Einherja, sat þingið og móttók viðurkenninguna frá Geir Þorsteinssyni fráfarandi formanni KSÍ.