Skora á „góðkunningja“ vetrarhlaupasyrpunnar að mæta með vin á laugdardag
„Við hvetjum nýliða eindregið til að mæta í hlaupið um helgina,“ segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, en hún er ein þeirra sem heldur utan um vetrarhlaupasyrpu Hlaupahéranna sem fagna tíu ára starfsafmæli um þessar mundir.
Vetrarhlaupasyrpa Hlaupahéranna samanstendur af sex tíu kílómetra hlaupum sem haldin eru síðasta laugardag í mánuði frá október og fram í mars. Keppendur fá stig eftir árangri og stigahæstu hlaupararnir eru verðlaunaðir í lok vetrar.
Fyrsta vetrarhlaupasyrpan var haldin veturinn 2008-2009 að frumkvæði Ólafar Sigurbjartsdóttur og síðan þá hefur hún verið haldin árlega og aðeins einu sinni hefur þurft að fresta hlaupi. Auk Elsu Guðnýjar hafa þær Gyða Guttormsdóttir og Guðbjörg Björnsdóttir séð um skipulagninguna undanfarin ár, auk fjölda annarra sjálfboðaliða.
Skráningargjöld falla niður um helgina
„Mikið verður um dýrðir í síðasta hlaupi vetrarins sem fram fer á laugardaginn, skráningargjöld verða felld niður og boðið verður upp á 5 kílómetra skemmtiskokk auk hins hefðbundna 10 kílómetra hlaups. Að hlaupi loknu býður Sesem brauðhús upp á afmælisköku, dregið verður um veglega vinninga og síðast en ekki síst verða stigahæstu hlauparar vetrarins verðlaunaðir," segir Elsa Guðný og bætir því við að fyrirtæki á svæðinu hafi verið dugleg að styrkja hlaupið undanfarin ár í formi vinninga, að ógleymdu íþróttahúsinu á Egilsstöðum sem hefur boðið hlaupurum frítt í sund eftir átökin.
Við skoruðum líka á alla „góðkunningja“ vetrarhlaupanna að mæta á laugardaginn með að minnsta kosti einn vin sem ekki hefur tekið þátt áður.
Í fyrsta skipti sem fólk tekur þátt í keppnishlaupi ráðleggjum við þeim fyrst og fremst að njóta þess að taka þátt, fara vegalengdina á eigin forsendum og keppa við sjálfan sig og sín markmið.“
Vonast eftir öðrum tíu árum
Er von á öðrum tíu árum hjá Hlaupahérunum? „Við vonum það svo sannarlega. Þátttaka í hlaupinum hefur alltaf verið góð og hlauparar komið víða að, en svo lengi sem þeir mæta þá höldum við áfram.“
Ljósmynd: Eyþór Hannesson.