Skrifað undir samkomulag Fjarðabyggðar og Leiknis

Knattspyrnudeild Leiknis Fáskrúðsfirði og Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar (KFF) hafa gert með sér samkomulag um að senda sameiginlegt lið til keppni í Íslandsmóti karla næsta sumar. Samkomulag um það var undirritað í dag.

Eftir helgi rennur út frestur til að tilkynna lið til keppni í Íslandsmótinu 2022. Farin er sú leið að Fjarðabyggð, sem féll í þriðju deild í haust dregur lið sitt úr keppni.

„Við ætlum okkur að taka sæti Leiknis í annarri deild. Það eru fordæmi fyrir því,“ segir Magnús Ásgrímsson, formaður knattspyrnudeildar Leiknis.

Samkomulagið er til eins árs og segir Magnús stefnt að því að nota þann tíma til að forma breiðara samstarf utan um knattspyrnuiðkun í Fjarðabyggð. Lagt var upp með það þegar viðræður hófust fyrir um mánuði en ekki vannst tími til að leiða þær til lykta nú.

Ekki er búið að staðfesta nafn nýja liðsins, vinnuheitið er „Austrið“ en Magnús segir þörf á nánara samtali við Knattspyrnusambands Íslands um það.

Æfingar hefjast í næstu viku og mun Vilberg Marinó Jónasson stýra þeim á meðan leitað verður að framtíðar þjálfara.

Leiknir á 60% hlut í samstarfsfélaginu en Fjarðabyggð 40%. Magnús segir að félögin muni áfram halda sjálfstætt utan um sinn rekstur. Fimm fulltrúar verða í stjórn, þrír frá Leikni en tveir frá Fjarðabyggð. Ekki hefur verið gengið frá því hverjir þeir verða.

Fjarðabyggðarhöllin og Eskjuvöllur hafa verið tilkynntir til KSÍ sem heimavellir liðsins. Magnús segir að endanlegt val á heimavelli fyrir sumarið verði ákveðið í samráði við þjálfara.

Hilmir Ásbjörnsson og Magnús Ásgrímsson skrifa undir samninginn í dag. Mynd: Aðsend


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar