Snjór um víða veröld: Dagskrár í Stafdal og Oddsskarði
Vegleg dagskrá er í boði á austfirsku skíðasvæðunum í Stafdal og Oddsskarði á sunnudag í tilefni alþjóðaverkefnisins „Snjór um víða veröld.“ Aðstandendur segja daginn kjörinn til að bjóða upp á útivist, hreyfingu og samveru fyrir fólk á öllum aldri.
Á skíðasvæðinu í Stafdal verður opið frá kl. 10.00 – 16.00 og frítt verður fyrir alla grunnskólakrakka í lyfturnar. Á milli kl. 10.00 og 12.00 verður boðið uppá andlitsmálningu í skíðaskálanum. Kl. 11.00 – 12.00 og 13.00 – 14.00 verður brettakennsla í boði fyrir byrjendur við byrjendalyftuna.
Tónlist verður í fjallinu og brautir fyrir gesti skíðasvæðisins. Sprettur sporlangi kemur í heimsókn og hver veit nema hann skelli sér á skíði eða bretti.
Skíðamiðstöð Austurlands og Skíðafélag Fjarðabyggðar bjóða öllum frítt í Oddsskarð. Skíðafélagið aðstoðar byrjendur á skíðum og bretti að taka sitt fyrsta rennsli í brekkunum. Í skálanum verða heitt kaffi og kakó fyrir gesti.
Það er Alþjóðaskíðasambandsið sem stendur fyrir verkefninu „Snjór um víða veröld“ sem ýtt var af stað árið 2007. Sérstakur dagur í tengslum við verkefnið var fyrst haldinn í fyrra. Átakinu er ætlað að hvetja til aukinnar skíðaiðkunar barna og unglinga.
Agnar Sverrisson, rekstrarstjóri skíðasvæðisins í Stafdal segir daginn „frábæra leið til þess að draga fólk út í snjóinn og njóta alls þess sem hann hefur uppá að bjóða. Þetta er heilsueflandi fjölskylduáhugamál sem stuðlar að útivist, hreyfingu og samveru fyrir fólk á öllum aldri.“
Upplýsingar um skíðasvæðið og skíðafæri er að finna á síðunni www.stafdalur.is og í síma 8781160. „Snjór um víða veröld“ dagurinn í Stafdal er í boði Skíðasvæðisins í Stafdal og Austurfarar. Upplýsingar um færið í Oddsskarði eru á www.oddsskard.is.