Spila körfubolta sleitulaust í átta tíma

Drengir í 10. flokki Hattar standa í kvöld fyrir körfuboltamaraþoni þar sem þeir spila stanslaust í átta tíma. Það er haldið til að safna fyrir æfingaferð til Spánar í júní.

„Við ætlum að spila frá klukkan 18 í dag til tvö í nótt. Við gerðum það í fyrra og tókst vel til.

Þetta er skemmtileg leið til að slá tvær flugur í einu höggi. Það er gaman að eiga saman langa kvöldstund sem eykur samkeppnina og afla fjár í leiðinni,“ segir Einar Árni Jóhannsson, yfirþjálfari yngri flokka.

Ferðinni er heitið til Lloret de Mar, sem er strandbær skammt norðaustur af Barselónu. Tíundi flokkar Hattar spilaði þar líka í fyrra. Einar Árni segir það hafa tekist vel.

„Við spiluðum fimm erfiða leiki í fyrra. Það vannst enginn sigur en tveir leikjanna urðu mjög spennandi. Mótið gaf liðinu mikla reynslu. Þetta er mót með mikla sögu og þar spilaði liðið okkar við lið úr annarri körfuboltamenningu, svo sem frá Ítalíu og Spáni.

Aðstæður eru líka krefjandi. Við vorum með pilta í hörkustandi sem hlupu á veggi við að spila leiki snemma dags í 25-30 stiga hita. Við þurfum því að passa upp á næringu og annað sem fylgir því að spila í slíkum aðstæðum.“

Spilamennskan í kvöld verður brotin upp þannig ekki er allur hópurinn að allan tímann, en þó alltaf hluti hans. Opið hús er milli klukkan 18 og 20 í kvöld fyrir áhugasama sem sem vilja fylgjast með strákunum spila.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar