Stelpugolf: „Á vellinum ræður núvitundin ríkjum“

„Það hallar á konur, það er staðreynd. Það eru 20 börn að æfa golf hér á Reyðafirði og kannski bara þrjár stelpur sem byrja sumarið en aðeins ein til tvær sem endast,“ segir Sunna Reynisdóttir í Golfklúbbi Fjarðabyggðar, en Stelpugolf, samstarfsverkefni GSÍ og PGA verður haldið á Kolli, golfvellinum á Reyðarfirði á mánudaginn.



„Stelpugolf er nú haldið á fimm stöðum á landinu og þar á meðal eru golfklúbbarnir hér fyrir austan með í vekrkefninu. Markmið verkefnisins er að fá fleiri stelpur á öllum aldri til að prófa golfið,“ segir Sunna.

Stelpudagurinn stendur frá 11-14 og golfstelpur á öllum aldri eru velkomnar og aðgangur er ókeypis.

„Það verða fjórar stöðvar, SNAG, pútt, vipp og lengri högg. Við fáum til okkar PGA kennara og auk þess leiðbeina heimamenn. Eftir stelpugolfið verður svo hægt að kaupa sér einkatíma, en þeir eru bæði fyrir konur og karla.“

Er þetta í annað skipti sem Stelpugolfið er á haldið á Kolli og segir Sunna það strax hafa skilað árangri. „Já, það skiluðu sér þrjár nýjar konur til okkar eftir síðasta námskeið og við bara bindum vonir við að fá enn fleiri í ár. Það er um einn fjórði hluti okkar meðlima konur í dag.“

Aðspurð hvað sé svona heillandi við golfíþróttina segir Sunna; „Jah, ég er í það minnsta á vellinum allan daginn. Þetta er bara frábær íþrótt sem hentar allri fjölskyndunni, það er enginn of gamall, enginn of ungur og enginn of hægfara, það geta allir verið með. Á vellinum ræður núvitundin ríkjum, maður getur verið einn eða þá með félagsskap, það skiptir ekki máli.“

Hér má fylgjast með viðburðinum. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.