„Stóð stoltur með hönd á hjarta“

„Þetta var alveg geggjað allt saman, þarna var maður að sjá íþróttafólk sem maður annars sér bara í sjónvarpinu. Ég hef ekki skemmt mér eins vel í bogfimi síðan ég byrjaði að æfa,“ segir Haraldur Gústafsson, en hann hlaut bronsverðlaun ásamt liðsfélögum sínum í keppni í sveigboga á 70 metra færi á Smáþjóðaleikunum í San Marínó í byrjun júní.

Alls átti Austurland fjóra keppendur á leikunum. Haraldur Gústafsson og Guðný Gréta Eyþórsdóttir kepptu bæði í bogfimi, en þau æfa með Skotfélagi Austurlands. Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir keppti með A-landsliðinu í blaki og Heiða Elísabet Gunnarsdóttir keppti í strandblaki en þær spila báðar með meistaraflokki Þróttar í blaki.

Haraldur og Guðný kepptu bæði í sveigboga utanhúss á 70 metra færi. Haraldur keppti bæði í einstaklingskeppni og liðakeppni en Guðný Gréta aðeins í einstaklingskeppni þar sem ekki voru nægilega mörg lið til þess að halda úti liðakeppni. Guðný Gréta komst í gegnum fyrsta útslátt en laut svo í lægra haldi fyrir þeim keppanda sem hafnaði í öðru sæti. Haraldur komst ekki í gegnum fyrsta útslátt í einstaklingskeppninni en gerði sér lítið fyrir og hafnaði í þriðja sætinu í liðakeppninni, en með honum í liði voru þeir Sigurjón Atli Sigurðsson og Guðmundur Örn Guðjónsson.

Skráning bogfimihlutans klúðraðist
Aðspurður hvaða máli mót sem þetta skipti segir Haraldur; „Eins leiðinlegt og það er þá klúðruðu skipuleggjendur bogfimihluta mótsins, en það þarf að skrá allt á ákveðinn hátt og með ákveðnum fyrirvara. Það var ekki gert og því er þetta ekki skráð á alþjóðaskalanum og ég er ekki viss að þó svo að heimsmet hefði verið slegið þá hefði það ekki talist löglegt. En, fyrir íþróttina hérna heima held ég að þetta eigi eftir að skipta miklu máli, fólk veit lítið um bogfimi og það bjóst enginn við neinu. Ég vona því að þessi góði árangur auki enn áhuga á íþróttinni, bæði hér fyrir austan sem og um land allt.“

Allt ævintýri líkast
Um 200 íslendingar kepptu á leikunum. Haraldur segir mótið og allt sem því tengist hafa verið ævintýri líkast, en það hafi þó verið tvö atriði sem uppúr stóðu fyrir hann persónulega. „Í fyrsta lagi var það þegar ég keppti í liðakeppninni, en ég hafði aldrei gert það áður og er það töluvert öðruvísi en að keppa í einstaklingskeppni, þar eru aðrar reglur, uppstillingar og annað tímarammi. Hins vegar á ég líkelga aldrei eftir að gleyma því þegar stelpurnar í trissuboganum unnu bæði gull og bronsverðlaunin og tveir íslenskir fánar voru dregnir við hún, lúðrasveitin spilaði íslenska þjóðsönginn og maður stóð stoltur með hendi á hjarta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar