Stórleikur Clarks gulltryggði sætið í deildinni

Bandaríkjamaðurinn Akeem Clark fór á kostum og skoraði 48 stig þegar Höttur tryggði sér áframhaldandi þátttökurétt í 1. deild karla í körfuknattleik með 98-106 sigri á ÍA á föstudagskvöld. Skagamenn eru á móti fallnir.

 

karfa_armann_hottur_0072_web.jpgHattarmenn byrjuðu betur og voru 17-30 yfir eftir fyrsta fjórðung. Í öðrum leikhluta komust þeir í 20-36 en þá vöknuðu heimamenn og minnkuðu muninn í fimm stig. Hattarmenn leiddu í hléi 46-52.

Skagamenn skoruðu fyrstu fimm stigin í seinni hálfleik en þá vöknuðu gestirnir á ný, náðu tíu stiga forskoti og voru 68-79 yfir eftir þriðja fjórðung. Þeir höfðu síðan örugg tök á leiknum í fjórða leikhluga og voru um tíma með tæplega tuttugu stiga forskot.

Akeem Clark fór á kostum í liði Hattar og skoraði 48 stig. Davíð Ragnarsson skoraði 17 stig og gamli maðurinn Hannibal Guðmundsson skoraði 15 stig, þar af setti hann niður eina þriggja stiga körfu auk þess að taka sjö fráköst. Ágúst Dearborn sendi tólf stoðsendingar, tók sjö fráköst og skoraði sex stig.

Seinasti leikur Hattar á tímabilinu verður á föstudagskvöld þegar liðið tekur á móti Ármanni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.