Styrkjum úhlutað úr Spretti

Tíu styrkjum var úthlutað úr Spretti - Afrekssjóði UÍA og Alcoa á Fjarðaálsmótinu á laugardag.  Alls bárust 36 umsóknir til sjóðsins nú.

 

sprettur.jpgMikil aðsókn var í sjóðinn og ekki auðvelt að gera upp á milli umsókna.

Alls bárust 36 umsóknir í fjórum flokkum. Úthlutað var einum afreksstyrk, fjórum iðkendastyrkjum, þremur þjálfarastyrkjum og tveimur félagastyrkjum samtals 670.000 krónum.

Sara Þöll Halldórsdóttir, fimleikakona úr Hetti, hlaut afreksstyrk að fjárhæð kr. 100.000 fyrir framúrskarandi árangur í fimleikum. Iðkendastyrki að upphæð kr. 50.000 hlutu Andrés Kristleifsson, körfuknattleiksmaður úr Hetti, Eysteinn Bjarni Ævarsson, körfuknattleiksmaður úr Hetti, Tadas Jocys, knattspyrnumaður í Leikni og Valdís Ellen Kristjánsdóttir, fimleikakona úr Hetti. Öll þessi ungmenni hafa náð gríðargóðum árangri í sinni grein.

Þjálfarastyrki hlutu Guðný Margrét Bjarnadóttir, skíðaþjálfari frá Eskifirði, Jóhann Arnarson, golfkennari frá Eskifirði og Miglena Apostolova, blakþjálfari frá Þrótti Neskaupstað.

Félagastyrki hlutu Kajak klúbburinn KAJ Norðfirði og Skíðafélagið í Stafdal.

Afrekssjóðurinn Sprettur er samstarfsverkefni UÍA og Alcoa Fjarðaál, en sjóðurinn er alfarið fjármagnaður af Alcoa. Elín Rán Björnsdóttir formaður UÍA segir þetta samstarf afar þýðingarmikið fyrir íþróttahreyfinguna á Austurlandi.

„Þetta geri ungu afreksfólki kleift að stunda grein sína af meira kappi, þjálfurum kost á því að bæta menntun sína og aðildarfélögum tækifæri til að bæta starfsemi sína. Það er ómetanlegt og afar ánægjulegt að njóta stuðnings Alcoa og vinna með þeim að bættu íþróttastarfi á Austurlandi."

Næsta úthlutun úr sjónum fer fram í október og umsóknarfrestur verður auglýstur í september 2010.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar