Stytti fríið með fjölskyldunni til að geta hjólað með Hjólakrafti

Einn Austfirðingur var meðal þeirra rúmlega hundrað liðsmanna Hjólakrafts í hjólakeppni Wow sem fengu kjötsúpu á Egilsstöðum í gærkvöldi. Hraustlegir vindar hafa gert hjólafólkinu erfitt fyrir.


„Að fá svona heitan mat er lífsbjörg því kælingin verður svo mikil þegar mótvindurinn er svona mikill. Síðustu 600 kílómetrar hafa verið slagur við hliðar- og mótvind,“ sagði Þorvaldur Daníelsson, liðsstjóri Hjólakrafts.

Hjólakraftur hefur sinn eigin flokk í hjólreiðakeppninni. Verkefnið snýst um hjólreiðar barna- og ungmenna og eru starfandi 14 hópar á landinu, þar af einn á Fljótsdalshéraði í umsjá UMF Þristar.

Um 80 krakkar af öllu landinu koma saman til að mynda Hjólakraftsliðin og þau fylgja 30 fullorðnir, alls um 110 manns. Samkvæmt reglum keppninnar mega vera 10 manns í hverju liði og því eru 11 fullskipuð lið í flokknum.

Umgjörðin í kringum liðið er mikil, tvær stórar rútur, flutningabíll með hólum og fjórir húsbílar. Þessi hópur kom við á Vilhjálmsvelli á tólfta tímanum í gærkvöldi og fékk þar heita kjötsúpu og brauðmeti sem hjólagarpar á Héraði stóðu fyrir.

Skýfall á Jökuldalnum

Flokkur hjólakrafts og þeir sem taka þátt í einstaklingskeppninni voru ræstir af stað úr Borgarnesi klukkan sex á þriðjudag. Síðustu kílómetrarnir áður en komið var í Egilsstaði tóku í.

„Það var skrautlegt í Jökuldalnum, mikið skýfall en vindurinn virtist aðeins vera að ganga niður þegar við komum þangað. Krakkarnir hafa hins vegar hvergi gefið eftir heldur lagt fram allt sem þau hafa.“

Neitaði að fara út nema fá að hjóla

Einn Austfirðingur hjólar með Hjólakrafti, Unnar Aðalsteinsson frá Egilstöðum. „Ég fékk smá eyrnabólgu í byrjun en hún hefur batnað síðan. Ég var líka með í fyrra og vildi fara aftur því mér fannst þetta svo gaman og góður félagsskapur.“

Hann sýndi einstaka ákveðni í að koma heim, sumarfrí fjölskyldunnar var stytt til að geta verið með. „Mamma og tveir bræður mínir eru í Svíþjóð en við pabbi komum heim. Við vorum í Króatíu en ég neitaði að fara með nema ég fengi að fara í hjólakeppnina.“

Faðir Unnars, Aðalsteinn Þórhallsson, sat undir stýri á einum húsbílnum sem fylgdi eftir keppendum úti á vegi þegar Austurfrétt hitti á hópinn. Það gafst því ekki færi á að spyrja hann sjálfan hvort hann væri sáttur við að hafa sleppt Svíþjóð en Unnar svaraði spurningunni fyrir hans hönd.

„Já, já, hann á engin skyldmenni þar!“

Fyrstu lið nálgast Egilsstaði

Um hálf tólf í morgun var lið Hjólakrafts komið suður í Suðursveit og í betra veður en fyrri helming leiðarinnar. Fremsti einstaklingur keppninnar var á svipuðum slóðum. Aðrir keppendur í einstaklingskeppninni voru flestir á leiðinni upp Öxi þá.

Á sama tíma var fyrsta liðið komið niður í Jökuldal. Flest liðin voru hins vegar stödd milli Möðrudals og Reykjadals en liðaflokkarnir tvær ræstu úr Reykjavík klukkan sex og sjö í gærkvöldi. Búast má við að þau nálgist Egilsstaði þegar líður að kaffi í dag. Hjólað er réttsælis um Hringveginn en farið yfir Öxi.

Þeim tilmælum er beint til ökumanna að sýna sérstaka aðgát og tillitsemi meðan svo margt hjólafólk er á ferðinni.

wowcyclothon 2017 0002 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar