Sumarhátíðin hefur þróast með samfélaginu

„Sumarhátíðin er í sífelldri þróun frá ári til árs og reynt er að vera í takt við nútímasamfélagið,“ segir Ester Sigurðardóttir, framkvæmdarstjóri UÍA, en Sumarhátíð UÍA og Síldarvinnslunnar fer fram á Egilsstöðum um helgina.



Dagskrá hátíðarinnar er einkar fjölbreytt og glæsileg og alveg ljóst að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

„Okkar markmið er að sinna því sem er í boði hér á Austurlandi, en greinar eins og og hjólreiðar hafa farið vaxandi undanfarin ár og því frábært að geta boðið upp á þær á hátíðinni,“ segir Ester, en með henni að undirbúningi vinnur Erla Gunnlaugsdóttir, sumarstarfsmaður UÍA.

Dagskráin hefst á púttmóti eldri borgara klukkan 15:00 á föstudaginn og í beinu framhaldi verður sambærilegt mót fyrir börn. „Við leggjum áherslu á að bjóða upp á afþreyingu fyrir alla aldurshópa og skapa góða stemmningu í pósthúsgarðinum með lifandi tónlist og fjölbreyttum greinum,“ segir Ester.

Á laugardaginn er sundmót, frjálsíþróttamót, Höttur verður með körfuboltabúðir, frisbígolfmót og grill í Bjarnadal þar sem að verður einnig keppt í Ringó.

Á sunnudaginn verður frjálsíþróttamót þar sem öllum er heimilt að taka þátt. Einnig verður Bocciamót, Crossfitmót, fjallajólakeppni Húsasmiðjunar í Selskógi. Dagskrána í heild sinni má sjá hér.


„Hér áður fyrr byggðist Sumarhátíðin einungis á frjálsum íþróttum og sundi nú er meiri fjölbreytileiki í íþróttaiðkun á svæðinu sem UÍA fagnar og fylgir þróuninni eftir. Þátttaka á hátíðinni ræðst mikið til af veðri auk þess sem margt annað er um að vera á þessum árstíma. Við bjóðum alla velkomna og það verður gaman að sjá fjölskyldu og vini samankomna til að taka þátt í heilsueflandi viðburði,“ segir Ester.

Keppni og verðlaun ekki aðalatriði í Danmörku
Starfsfólk UÍA er nýkomið heim úr hópferð forsvarsmanna ungmennafélagshreyfingarinnar á landsmót DGI í Álaborg í Danmörku.

„Ráðstefnan í Danmörku var mjög áhugaverð og þótti okkur mjög skemmtinlegt að sjá hvernig danir takast á við viðburð eins og þennan. Þar er aðalatriðið að fólk taki þátt og keppnin ekki aðalatriðið, heldur gleðin, hreyfing og félagsskapurinn. Ekki er mikið um verðlaun og viðurkenningar og allir fá að taka þátt í því sem hentaði hverjum og einum. Ferðin var í alla staði mjög lærdómsrík og þjappaði fólki í þessum geira saman sem gefur aukna möguleika á því að hægt sé að leita til hvers annars.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar