Sumarið hefur hitað vatnið upp
Um 110 keppendur eru skráðir til leiks í Urriðavatnssundi sem synt verður í áttunda sinn á morgun. Þótt kólnað hafi síðustu daga hefur sumarið farið vel með vatnið.
„Sumarið hefur leikið við okkur og hitað vatnið vel upp. Þótt það kólni tímabundið í veðri líst okkur svo á að aðstæður verði góðar,“ segir Pétur Heimsson, einn aðstandenda sundsins.
Undanfarin ár hefur vatnið verið 15-17 gráður. Þegar það var mælt á þriðjudag var það rúmar 17 gráður.
Keppendur í ár eru álíka margir og í fyrra sem var metár. „Við erum mjög ánægð með það. Við vorum í aðra röndina hrædd um að sprengingin sem varð í fyrra væri bóla.“
Flestir keppendurnir koma utan fjórðungs en lykillinn að vinsældum sundsins er að það er hluti af hinni svokölluðu landvættaþraut. Þeir sem að auki ljúka hlaupi í Jökulsárgljúfrum, Fossavatnsgöngunni á skíðum á Ísafirði og hjólreiðaþrautinni við Grindavík á einu ári hljóta nafnbótina landvættir.
„Við vitum að það eru margir sem stefna á landvættir. Við vitum ekki hve margir en þeir skipta tugum,“ segir Pétur.
Landvættasundið svonefnda er 2,5 km en einnig er í boði hálft sund. Sundfólkið verður ræst í tveimur hollum frá Hitaveitutanganum, annars vegar klukkan 8:45 og hins vegar klukkan 9:45. Áhorfendur eru velkomnir til að fylgjast með keppninni en eru hvattir til að sameinast í bíla þar sem takmörkuð bílastæði eru við tangann.