„Það var blátt haf í brekkunni“

Ungmennafélagið Neisti á Djúpavogi sendi fjölmennt lið barna og fullorðinna á Sumarhátíð UÍA og Síldarvinnslunnar sem fram fór á Egilsstöðum um helgina. Félagið leigði Kirkjumiðstöð Austurlands á Eiðum undir félagsmenn.



„Dagskráin sem UÍA bauð upp á var alveg stórkostleg, eitthvað fyrir alla og miklu meira en maður komst yfir að gera, sem er algert lúxus-vandamál. Þegar hún lá fyrir kom þessi hugmynd upp, að leigja Kirkjumiðstöðina á Eiðum, sem var alveg frábær og gerði helgina að ómetanlegri samveru og skemmtun fyrir alla,“ segir Greta Mjöll Samúelsdóttir, íþróttafulltrúi á Djúpavogi, en margir gistu í miðstöðinni sjálfri, einhverjir fóru í útilegu á lóðinni og enn aðrir keyrðu á milli.

Greta Mjöll er mjög ánægð með sitt fólk.

„Það eru ofsalega duglegir krakkar innan Neista sem eiga flotta foreldra og frábært bakland. Það var gaman að sjá hve allir voru tilbúnir í þetta, við unnum ekki stigakeppni en það var blátt haf í brekkunni og félagið var mjög áberandi, bæði þar og hvert sem við fórum. Það var mjög gefandi að upplifa þetta, því það er eitt að þjálfa krakka í íþróttum allan daginn, en þetta andrúmsloft kemur ekki frá þjálfara, heldur frá fólkinu á staðnum.

Það tóku allir þátt, mömmur og pabbar hoppuðu inn í keppni í spjótkasti, kúluvarpi og meira að segja 800 metra hlaupi. Með því fengu krakkarnir þau skilaboð að allir geta tekið þátt, haft gaman og keppnin snúist ekki bara um það að fá medalíur.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar