Tæplega 200 skráðir í Dyrfjallahlaup

Tæplega 200 manns eru skráðir í Dyrfjallahlaup sem þreytt verður í fyrsta sinn á Borgarfirði á morgun. Bæta þurfti við sætum í hlaupið nær strax og opnað var fyrir skráningar.


„Við vissum ekkert hvað við vorum að fara út í þannig við settum 150 pláss sem hámark þegar við opnuðum fyrst fyrir skráninguna.

Það fylltist fljótlega þannig við fjölguðum í 200. Það fylltist líka,“ segir Óttar Már Kárason, formaður Ungmennafélags Borgfirðinga en hlaupið er hluti af 100 ára afmæli félagsins.

Einhver afföll hafa orðið á þeim sem skráðu sig en aðrir bæst við af biðlista þannig að von er á að tæplega 200 þátttakendur verði ræstir frá Hólalandi, innarlega í Borgarfirði klukkan tólf á hádegi.

Þaðan er hlaupið uppi í Sandaskörð og svo inní Stórurð, í kringum Dyrfjöll, niður Grjótdal áður en endað er á íþróttavellinum á Borgarfirði.

Leiðin er 23 km löng og hækkunin um 1100 metrar. Von er á að fyrstu keppendur geti farið leiðina á um tveimur tímum.

Helstu áhyggjur eru af því að veðrið verði of gott. Spáð er 20 stiga hita og glampandi sól á Austfjörðum á morgun sem eykur mjög vökvatap við áreynslu.

„Þetta er ekki fullkomið veður fyrir svona en ég vona að fólk fylgist vel með sjálfu sér. Við vonum að þetta gangi það vel að fólki vilji koma aftur á næsta ári því við stefnum á að halda hlaupinu áfram.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.