„Þarf ekki að taka tímann með skeiðklukku eins og bjáni lengur“

„Undirbúingur er á fullu - maður bara borðar, sefur og dreymir Orminn,“ segir Hildur Bergsdóttir, framkvæmdastjóri UÍA, en hin árlega hjólreiðakeppni, Tour De Ormurinn, verður haldin um helgina.



Sem fyrr verður hjólað umhverfis Lagarfljótið og fer keppnin fram á laugardaginn. Keppnisleiðir eru tvær, annars vegar „Umhverfis Orminn langa“ sem er 68 kílómetrar og þar er boðið uppá einstaklings og liðakeppni. Hins vegar er „Hörkutólahringurinn“ sem er 103 kílómetrar, en þar er eingöngu boðið upp á einstakskeppni.

Í ár verður einnig keppt í unglingaflokki. „Ákveðið var að styðja við verkefnið Hjólakraftur Austurlands og bjóða upp á sérstakan unglingaflokk þar sem hjólaðir verða í 68 kílómetrar, bæði í einstaklings og liðakeppninni. Það er fín skráning frá krökkum héðan að austan en líka væri gaman að sjá unglinga annarsstaðar frá,“ segir Hildur.


Stefnir í góða þátttöku

Hildur segir helstu breytinguna í ár vera þá að tímatakan verður rafræn. „Við erum með stærri styrktaraðila í ár, til dæmis Sjóvá, sem gerir okkur kleift að vera með rafmagnstímatöku með örflögu, en ég þarf þá ekki að taka tímann með skeiðklukku eins og bjáni lengur. Keppnin í fyrra var mjög jöfn og það var ekkert grín að taka tímann þegar margir koma á sama tíma í mark á 60-70 kílómetra harða. Þetta verður mikill munur og gerir keppnina flottari, skemmtilegri og meira „pró“.

Skráning fer vel af stað og nú þegar eru þær orðnar rúmlega þrjátíu, en hún lokar ekki fyrr en á fimmtudagskvöld. „Það virðist stefna í góða þátttöku heimafólks, en það hefur einmitt verið eitt af markmiðum okkar að efla hjólemanningu á svæðinu, en það höfum við bæði gert með Hjólakrafti og Hjólaormum sem er hjólahópur fyrir fullorðna. Svo hefur það verið lenskan síðustu ár að skráningar hrynja inn síðustu dagana þegar fólk sér veðurspána, en ég held að veðrið eigi að vera fínt á laugardaginn.“


Keppnin vekur athygli vegna góðrar brautarvörslu

Hildur segir að keppnin hafi alltaf vakið mikla athygli fyrir góða brautarvörslu. „Við bjóðum upp á örugga og góða braut og höfum borið af í þeim málum, það er ekki algengt í öðrum keppnum að brautarverðir standi við horn eða einbreiðar brýr, en það er eitthvað sem við leggjum mikla áherslu á. Þess vegna erum við enn að safna sjálfboðaliðum í það verkefni.“

Hildur segir viðburðinn ekki eingöngu snúast um blóðuga keppni. „Við bjóðum upp á erfiðan hring en einnig liðakeppni og unglingakeppni þannig að allir geta tekið þátt, bara skella í lið og hafa gaman. Í fyrra féllu öll brautarmet og það verður forvitnilegt að sjá hvað gerist í ár.

Við verðum svo með „óbyggðakvöld“ í Óbyggðasafninu í Fljótsdal eftir keppni, en það er okkar leið til þess að fólk njóti dagsins enn frekar, að þetta snúist ekki bara um blóð, svita og tár, heldur einnig að hittast, vera saman og njóta þess að vera til.“

Frekari upplýsingar og skráningu í keppnina má finna hérOrmurinn 2015.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar