Team Rynkeby hjólar um Austfirði

Um fjörtíu hjólreiðamenn á vegum Team Rynkeby verða á ferðinni um Austfirði í dag og á morgun. Undir venjulegum hringumstæðum væri hópurinn að hjóla frá Danmörku til Parísar og safna áheitum til styrktar góðu málefni. Velja þurfti aðra leið í ár.

Íslendingar þekkja Rynkeby merkið sennilega fyrir ávaxtasafana sem fáanlegir eru í hillum verslana. Frá árinu 2002 hefur fyrirtækið hins vegar staðið að baki Team Rynkeby, hópum hjólreiðafólks sem hjóla og safna áheitum til styrktar langveikum börnum.

Hjólahópar undir merki Team Rynkeby eru öflugastir á Norðurlöndunum en eru einnig í nokkrum öðrum Evrópuríkjum. Hérlendis var Rynkeby-hópi komið á fót árið 2017.

Hóparnir eru alls 57 talsins og í þeim um 2100 hjólreiðamenn ásamt ríflega 500 manna þjónustuliði. Í íslenska hópnum í ár eru 42 hjólreiðamenn, þar af 29 sem taka þátt í ferðinni í ár og 11 aðstoðarmenn.

850 km í vikunni

Undir venjulegum kringumstæðum hefðu hóparnir hjólað frá Danmörku til Parísar, alls um 1300 km leið þessa vikuna. Starfsmenn Team Rynkeby í Danmörku bóka gistingu fyrir liðin sem annars finna sér hvert sína leið á milli staða uns þau hittast að lokum öll í almenningsgarði í París.

En árið í ár er löngu hætt að geta á nokkurn hátt talist venjulegt út af Covid-19 faraldrinum. Parísarferðin var því slegin af og hjóla því liðin í staðinn flest í sínu heimalandi, vikuna sem ferðin úti hefði annars verið farin. Íslenski hópurinn lagði af stað á laugardag og ætlar sér á viku að hjóla 850 km leið.

Í dag og á morgun verður hjólað um Austfirði. Bækistöð hópsins er á Breiðdalsvík, en farið var af stað frá Norðfirði þangað upp á ellefta tímanum í morgun. Gert er ráð fyrir að áð verði á leiðinni á við tjaldsvæðið á Reyðarfirði og verslunina Brekkuna á Stöðvarfirði. Í fyrramálið verður síðan farið frá Breiðdalsvík klukkan átta í fyrramálið yfir til Djúpavogs. Í gær var hjólað frá Ásbyrgi út á Þórshöfn en að meðaltali fer hópurinn um 100 km á dag.

Alls staðar vel tekið

Guðmundur S. Jónsson, liðsstjóri Team Rynkeby á Íslandi, segir að reynt hafi verið að velja aðeins fáfarnari leiðir utan Hringvegarins til að hægja síður á umferð. Allur hópurinn hjólar í einu og er töluvert áberandi því allir eru í áberandi gulum klæðnaði og á eins hjólum.

Hann segir ferðina til þessa hafa gengið vel og hópnum hafa verið vel tekið. „Við tökum pláss á veginum og vildum því vera sem minnst á þjóðvegi 1, þótt við við verðum á honum að hluta. Þetta snérist líka um hvar við fengum gistingu, það þarf að koma fyrir 40 manns.

Ferðin til þessa hefur gengið mjög vel og við verið heppin með verður flesta daga, þótt inn á milli hafi verið smá mótvindur. Langflestir ökumenn sýna okkur tillitssemi, vinka og klappa fyrir okkur og hvar sem við höfum komið höfum við fengið frábærar móttökur,“ segir hann.

Nauðsyn að vera í góðu formi

Talsverð vinna er að baki því að vera í hjólreiðaliðinu. Í fyrsta lagi þarf hjólreiðafólkið að sækja um að komast í hópinn, í öðru lagi að greiða kostnað fyrir að fá hjól, klæðnað og gistingu, í þriðja lagi stendur það fyrir fjáröflunum og áheitasöfnun og í fjórða lagi þarf að æfa til að vera í góðu formi fyrir stóru vikuna.

„Ég sá viðtal við þau sem komu með Team Rynkeby fyrst til Íslands í blaði 2016. Mér fannst þetta strax spennandi, það góða er að það vinna allir. Allir gefa af sér en síðan þarf að þjálfa sig upp til að geta hjólað 1300 km á 8 dögum þar sem lengstu dagarnir eru 210 km. Það er mjög krefjandi ferð. Síðan kynnist maður fullt af fólki í liðinu,“ segir Guðmundur.

Íslenski hópurinn hefur þrisvar tekið þátt í hinni alþjóðlegu ferð og alls safnað tæpum 50 milljónum króna sem runnið hafa til Styrktarfélags Krabbameinssjúkra barna. Hægt er að heita á Team Rynkeby með því að hringja í eftirfarandi styrktarnúmer: 907-1601 kr 1.500 - 907-1602 kr 3.000 - 907-1603 kr 5.000

Hópurinn í Neskaupstað í gærmorgun. Mynd: Brynja Kristinsdóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.