„Það er nóg pláss á bakkanum til að fylgjast með“

„Aðstæður til sundsins hafa aldrei verið betri,“ segir Þórunn Hálfdánardóttir, ein þeirra sem kemur að skipulagningu Urriðavatnssundsins sem fram fer á laugardaginn.


Er þetta sjötta árið í röð sem sundið er þreytt en það er hluti Landvættakeppninnar. Metfjöldi þáttakanda verður á laugardaginn.

„Við getum aðeins tekið við 180 manns en sú tala var strax komin um mánaðamótin júní/júlí og því var lokað fyrir skráningu en opnað á biðlista. Svo verða oft breytingar á síðustu stundu og ég held að nú séu skráðir til leiks 175 og einhverjir eru í startholunum,“ segir Þórunn en sundið er 2,5 kílómetrar.

„Synt verður í þremur riðlum, en við getum aðeins verið með 60 manns í vatninu í einu, öryggisins vegna. Fyrsti hópur verður ræstur út klukkan 07.45, þá klukkan 09:00 og síðasti hópurinn klukkan 10:15. Þeir fljótustu eru um 45 mínútur og flestir klára á innan við klukkutíma.

„Það er í lagi þó hann rigni“
Mikil hlýindi hafa verið á Austurlandi í sumar og hitinn á vatninu því góður. „Vatnið var 15,8 gráður og hefur aldrei verið betra á þeim árum sem keppnin hefur verið haldin. Við þurfum því ekki að hafa áhyggjur af hitastiginu en vonum að það hvessi ekki, en í fyrra var hvasst og því þurfti að stytta sundið. Miðað við spána núna erum við í góðum málum, því það er í lagi þó hann rigni, það eru allir hundblautir hvort sem er.“

„Við erum með góðan hóp með okkur“
Þórunn segir að fyllsta öryggis sé gætt varðandi sundið. „Við erum með góðan hóp með okkur. Björgunarsveitin sér um allt sem keppendum viðkemur út í vatninu, auk þess sem við erum með báta. Einnig erum við með mannskap til þess að taka á móti fólkinu á bakkanum að sundi loknu. Við erum með sjúkraflutningamenn og hjúkrunarfræðing til staðar ef eitthvað kemur upp á. Allt er þetta fólk sem hefur reynst okkur vel og við treystum fullkomlega.“

„Ákveðinn hópur sem kemur alltaf ár eftir ár“
Þórunn vill hvetja alla til þess að koma og fylgjast með sundinu á laugardaginn. „Þetta er mjög skemmtilegt og það er nóg pláss á bakkanum til þess að fylgjast með. Hingað til hafa áhorfendur að mestu verið þeir sem fylgja keppendunum þannig að þeir ættu að vera nokkuð margir í ár. Heimamenn hafa ekki verið mjög duglegir að koma, annars finnst mér það aðeins vera að aukast og það er ákveðinn hópur sem kemur alltaf ár eftir ár.“

Hér er Facebook-síða Urriðavatnssundsins. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar