„Það er ekki í Grindvíkingum að gefast upp“

Borði með stuðningsyfirlýsingu til Grindvíkinga vakti mikla athygli á landsleik Íslands og Slóvakíu í knattspyrnu sem leikinn var í Bratislava í gær. Mennirnir á bakvið borðann eru Austfirðingar með sterk tengsl við Grindavík.

„Þetta var fyrst og fremst planað til að peppa Grindvíkinga. Við fengum hörkuviðbrögð á vellinum. Þarna var stór hópur læknanema og margir þeirra komu of fengu myndir af sér með okkur. Síðan er Facebook búin að vera á hvolfi í dag,“ segir Thorberg Einarsson, annar mannanna sem myndaðir voru með borðann.

Fundu prentsmiðju í verslunarmiðstöð


Thorberg er uppalinn Grindvíkingur sem búið hefur á Vopnafirði í 20 ár. Með honum var Theodor Ríkharðsson, uppalinn Djúpavogsbúi sem býr í Grindavík. Þeir róa saman á Vésteini GK. Þeir komu í land á miðvikudag, tveimur dögum áður en Grindavík var rýmd vegna hættu á eldgosi. Þrátt fyrir að eiga engan fastan samastað ákvað Theodor samt að standa við ferðina sem farin var til að heimsækja vin þeirra sem býr í Slóvakíu.

„Planið var að gera eitthvað til að sýna Grindvíkingum stuðning. Upphaflega ætluðum við að láta prenta boli áður en við færum út en náðum því ekki. Í gær vorum við á labbi í verslunarmiðstöð hér og sáum prentsmiðju. Þá var ekki annað að gera en láta vaða.

Það er ekki í Grindvíkingum að gefast upp og því kom ekki annað til greina en setja þann texta undir,“ segir Thorberg, en fáninn skartar merki Ungmennafélags Grindavíkur og orðunum „Grindvíkingar gefast ekki upp.“

Thorberg segir félaganna hafa staðið með borðann á meðan liðin hituðu upp og þjóðsöngvarnir voru leiknir. Í leikslok kom landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason til þeirra en hann er úr Grindavík í móðurættina og ólst þar upp til tíu ára aldurs. „Hann gaf okkur merki þegar leikmennirnir fóru inn í klefa fyrir leik að hann myndi koma til okkar eftir leik. Hann rölti til okkar eftir leik, spjallaði við okkur smá stund og svo fengum við mynd af honum með okkur.“

Leiðinlegt að heyra vísindamennina tala í kross


Thorberg er sem fyrr segir uppalinn Grindvíkingur. Þar býr enn stór hluti fjölskyldu hans og fjölmargir vinir. Atburðir síðustu daga taka því á hann eins og aðra. „Þetta er hræðileg staða sem sér ekki fyrir endann á. Maður þekkir alla þessa staði sem sjást illa farnir á myndunum. Síðan kemur hver vísindamaðurinn og talar ofan í hinn. Ýmist er allt að springa eða ekki, annan daginn er spáð gosi og ekki hinn, stundum í bænum en líka úti í sveit. Þetta er frekar leiðinlegt.“

Að auki er bátur þeirra félaga skráður í Grindavík þótt hann sé lengst af árinu gerður út frá Stöðvarfirði. „Fiskurinn er verkaður hjá Einhamri í Grindavík. Við höfum fengið upplýsingar um að landverkafólkinu verði tryggð laun næstu þrjá mánuði. Við fáum að róa en þurfum að senda fiskinn á markað eða í aðrar vinnslur. Við höfum farið með bátinn til Grindavíkur á vertíð, það verður að koma í ljós hvernig það fer.“

Theodor, Alfreð og Thorberg í stúkunni í Bratislava í gærkvöldi. Mynd: Thorberg Einarsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.