Þarf meira en að vera stór og sterkur í glímunni

Hinn 19 ára gamli Reyðfirðingur, Þórður Páll Ólafsson, varð í vor glímukóngur Íslands í fyrsta sinn. Hann segir ekki nóg að vera stór og sterkur til að skella andstæðingum sínum í gólfið heldur þurfi líka lagni.

„Það hjálpar auðvitað að vera stór og sterkur og margir halda einmitt að þyngd sé aðalatriðið til að ná árangri í glímunni. En það kemur bara svo mikið meira til.

Hvað mig varðar snýst þetta um hausinn á mér annars vegar og tækni hins vegar. Það að segja að sannfæra sjálfan mig um að ég geti unnið andstæðing minn hverju sinni burtséð frá stærð hans eða getu.

Svo er tæknin stór hluti af þessu. Með góðri tækni í glímu getur minni andstæðingur haft betur gegnum stórum og sterkum mótherja og mörg dæmi sýna og sanna það gegnum tíðina,“ útskýrir hann.

Þórður Páll er uppalinn Reyðfirðingur sem lauk B-áfanga í vélstjórn frá Verkmenntaskóla Austurlands. Hann stefnir suður í haust til að ljúka því námi. Hann segir að síðar verði að koma í ljós hvort hann snúi aftur.

„Ég ætla bara að sjá til og hafa alla möguleika opna að námi loknu. Ég get alveg séð fyrir mér að koma aftur en kannski gefast einhver tækifæri fyrir sunnan þegar þar að kemur. Mig langar að fara á sjóinn sem vélstjóri, þó ég hafi reyndar mjög litla reynslu af því að vera á sjó, en ég er líka mjög spenntur fyrir að starfa eða koma mér fyrir í sveit. Ég hef mikið verið í sveit og kann því afskaplega vel.“

Hann stefnir í það minnsta að halda áfram að æfa glímuna. „Ég held þessu áfram því þetta er ótrúlega gaman og mikið til eina svona alvöru áhugamálið mitt í íþróttum. Það var einmitt eitt það sem ég kannaði fyrst þegar ljóst varð að ég ætlaði suður í meira nám hvar ég gæti æft glímuna áfram og jafnvel oftar en hægt er hér fyrir austan.

Það kannski hljómar klisjukennt en glímufólk er almennt mjög náinn hópur fólks og við erum töluvert mikið saman á mótum bæði hér heima og erlendis. Þarna auðvelt að eignast góða vini og þó við tökumst á á mótum þá er keppnisskapið ekkert umfram það.“

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, afhendir Þórði verðlaunin fyrir sigurinn í 113. Íslandsglímunni. Mynd: Glímusamband Ísland/Antanas Šakinis

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar